Nokkrar myndir frá Canela
Leikmenn meistaraflokks karla komu til landsins á laugardag eftir vel heppnaða æfinga- og keppnisferð til Canela á Spáni. Liðið æfði þar við toppaðstæður og lék þrjá leiki á jafnmörgum dögum. Gamla markmannskempan Jón Örvar Arason var með í ferðinni en hann er nú í varastjórn knattspyrnudeildar. Jón tók myndavélina að sjálfsögðu með og tók fjölmargar myndir af því sem fyrir augu bar í ferðinni, innan vallar sem utan. Verið er að vinna að því að koma myndunum hér inn á síðuna og eru hátt á annað hundrað myndir væntanlegar á næstu dögum. Hér koma þó nokkrar, svona til upphitunar.
Fyrst koma nokkrar myndir af forráðamönnum Aymonte sem gerðu ýmsar athugasemdir við dómgæsluna í leik sem endaði með 1-1 jafntefli. Takið sérstaklega eftir lágvaxna manninum sem ætlaði sér einfaldlega að lemja aðstoðardómarann; það kallar maður að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þar fyrir neðan eru svo nokkrar myndir af því þegar hópurinn ákvað að þeir Mete og Einar Orri þyrftu smákælingu og taldi best að leysa málið með því að henda þeim félögum í sundlaugina. Þar bendum við á barnslega gleðina sem skín úr andlitum piltanna, takið eftir Símun á neðstu myndinni.