Nokkrir bikarpunktar
» Úrslitaleikurinn gegn KR var 14. útileikur Keflavíkur í bikarkeppninni í röð. Fjórir þessara leikja voru á Laugardalsvellinum en Keflavík var alltaf dregið sem útilið. Við höfum því leikið fjögur keppnistímabil án þess að fá heimaleik í keppninni en unnið bikarinn tvisvar sem er óneitanlega vel af sér vikið. Síðast lék Keflavík á heimavelli í bikarkeppninni þann 3. júlí 2002 þegar U23 ára lið ÍA kom í heimsókn á Keflavíkurvöll. Þess má geta að Guðjón markaskorari Antoníusson lék þá sinn fyrsta leik með meistaraflokki og vonandi nær hann að leika annan bikarleik á heimavelli áður en hann leggur skóna á hilluna.
» Þeir Guðjón Antoníusson og Baldur Sigurðsson voru báðir að skora fyrstu bikarmörk sín fyrir Keflavík, Guðjón í sínum 13. bikarleik en Baldur í 5. bikarleik sínum. Guðjón hefur einnig skorað þrjú deildarmörk fyrir Keflavík og þar hefur Baldur skorað fimm mörk.
» Keflavík hefur nú leikið átta leiki í röð gegn KR án þess að tapa. Keflavík hefur unnið fimm leikjanna en þremur hefur lokið með jafntefli. Síðasti sigur KR gegn Keflavík í deild eða bikar var á Keflavíkurvelli 10. júní 2002 en þá sigraði KR 1-0.
» Keflavík vann fjóra leiki á leið sinni að bikarnum og markatalan var 13-3. Guðmundur Steinarsson skoraði fimm markanna, Stefán Örn Arnarson og Þórarinn Kristjánsson gerðu tvö og þeir Símun Samuelsen, Jónas Guðni Sævarsson, Guðjón Antoníusson og Baldur Sigurðsson skoruðu eitt mark hver.
» Alls tóku 17 leikmenn þátt í bikarleikjum sumarsins og þrír til viðbótar voru í leikmannahópnum án þess að leika. Fjórir leikmenn léku allar mínúturnar í leikjunum fjórum, þeir Guðjón Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Jónas Guðni Sævarsson og Guðmundur Steinarsson.
» Meðalaldur þeirra ellefu leikmanna sem hófu leikinn gegn KR var 23,3 ár. Öldungurinn í liðinu er Guðmundur fyrirliði Steinarsson sem er 26 ára en sá yngsti er Hallgrímur Jónasson, sem er tvítugur. Það er því óhætt að segja að lið Keflavíkur sé ekki mjög aldrað þessa dagana. Ekki eru stjórnendur liðsins heldur komnir til ára sinna; Kristján „forseti“ er rétt orðinn fertugur og Kristinn aðstoðarþjálfari heldur upp á 37 ára afmælið á laugardaginn (og býður örugglega öllum sem voru í Laugardalnum í veisluna).
» VISA Ísland hefur styrkt bikarkeppnina síðan 2003. Keflavík hlaut eina milljón króna í verðlaunafé frá VISA fyrir sigurinn í bikarkeppninni. Samkvæmt okkar heimildum rennur sú upphæð óskipt til Knattspyrnudeildar en fer ekki í að borga niður kreditkortaskuldir leikmanna eftir laugardagskvöldið. KR fékk hálfa milljón fyrir annað sætið í keppninni.
» Guðmundur Steinarsson varð fjórði fyrirliði Keflavíkur til að taka á móti bikarnum. Þegar Keflavík vann bikarinn fyrst árið 1975 var það varnarjaxlinn Einar Gunnarsson sem var fyrirliði liðsins og árið 1997 tók annar varnarmaður við bikarnum, Jakob Már Jónharðsson. Fyrir tveimur árum kom það síðan í hlut Zorans Daníels Ljubicic að taka við bikarnum.
» Kristján Guðmundsson bættist í fríðan hóp þjálfara sem leitt hefur Keflavík til sigurs í bikarnum. Árið 1975 voru gömlu kempurnar Guðni Kjartansson og Jón Jóhannsson þjálfarar Keflavíkurliðsins og árið 1997 voru enn tvær gamlar kempur við stjórnvölinn. Gunnar Oddsson lék þá einnig með liðinu og þjálfaði það með Sigurði Björgvinssyni. Árið 2004 var það svo Milan Stefán Jankovic sem þjálfaði bikarmeistara Keflavíkur.
» Í þau fjögur skipti sem Keflavík hefur orðið bikarmeistari höfum við unnið lið frá fjórum bæjarfélögum í úrslitaleiknum; Akranesi, Vestmannaeyjum, Akureyri og nú Reykjavík. Okkur hefur tekist að tapa í úrslitaleik fyrir Akurnesingum og Reykjavíkurliðunum Fram og Val.
Stuðningsmenn Keflavíkur áttu frábæran dag í Laugardalnum.
(Mynd frá Víkurfréttum)