Norðurál styður við starf íþróttafélaga í Reykjanesbæ
Norðurál - Helguvík sf. skrifaði þann 14. nóvember sl. undir samninga við deildir hjá UMFN og Keflavík um stuðning til þeirra fyrir alls kr. 2.800.000.
Samningarnir eru til eins árs og eru nokkir þeirra framhald á fyrirliggjandi samningi. Þeir sem hlutu stuðning eru: knattspyrnudeild Keflavíkur, körfuknattleiksdeild karla og kvenna í Keflavík, knattspyrnudeild UMFN, körfuknattleiksdeild UMFN og fimleikadeild Keflavíkur.
Fram kom í ræðu Ragnars Guðmundssonar forstjóra Norðuráls-Helguvíkur sf. að samningarnir væru aðeins byrjun á frekari stuðningi félagsins sem leggi áherslu á samfélagslega ábyrgð. Vitnaði hann í því sambandi til stuðnings fyrirtækisins við íþróttafélög á Akranesi þar sem fyrirtækið hefur starfsemi.
Einar Haraldsson varaformaður ÍRB þakkaði fyrir hönd félaganna stuðninginn og velvilja og sagðist vonast eftir frekara samstarfi við fyrirtækið á komandi árum.
Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði áherslu á að Norðurál-Helguvík sf. hafi frá fyrstu dögum starfsemi sinnar í Reykjanesbæ sýnt áhuga á að styðja við starfsemi íþróttahreyfingarinnar í Reykjanesbæ og sýnt þannig gott fordæmi.
Frétt af vef Reykjanesbæjar.