Fréttir

Knattspyrna | 12. maí 2005

Ný umgjörð um völlinn og leikinn

Knattspyrnudeild Keflavíkur leggur allt kapp á að umgjörð heimaleikja Keflavíkur verði skemmtileg.  Á fyrsta heimaleik sjá stuðningsmenn okkar og gestir töluverðar breytingar á vallarsvæðinu.  Komið hefur verið upp 120 metra auglýsingagirðingu aftan við bæði mörkin og K-merki á miðja stúkuna ásamt flaggstöng.  Þá mun PUMA-trommusveitin verða með öfluga hvatningu á öllum leikjum og mun stjórna stemmningunni.  Leikmenn yngri flokka Keflavíkur ganga inn á leikvöllinn með leikmönnum beggja liða og mun það setja skemmtilegan svip á upphaf leikjanna í sumar.  Foreldrar eru hvattir til að fylgja börnum sínum sem taka þátt í leiknum með okkur.

Foreldra- og stuðningsklúbbur Keflavíkur verður með skráningu nýrra félaga á leiknum og fá allir sem gerast meðlimir Keflavíkurboli og viljum við sjá alla fjölskylduna í Keflavíkurbolum á leikjum okkar manna í sumar.  Þá verður margt skemmtilegt að gerast hjá Fjölskylduklúbbnum, m.a. verður farið í heimsókn í Húsdýragarðinn og á leik með Keflavík á útivelli.

Fyrirtæki ætla að styrkja flesta heimaleiki Keflavíkur með því að skemmta áhorfendum, gefa þeim gjafir og vera með frítt happdrætti fyrir alla sem koma á völlinn.  Við ætlum að gera allt til að gleðja stuðningsmenn okkar í sumar og strákarnir verða aðalnúmerið og mesta aðdráttaraflið með góðri frammistöðu.  Einu sinni var sagt  „Fast þeir sóttu sjóinn...“, nú verður það „Fast þeir sóttu völlinn, Suðurnesjamenn...“.  Áfram Keflavík.  ási