Og nú var það ísbað!
Eins og við sögðum frá um daginn fékk Kristján þjálfari áskorun fyrir leikinn gegn Grindavík í Landsbankadeildinni. Ef liðið ynni leikinn þyrfti kallinn að sporðrenna nokkrum kókosbollum og drekka kók með. Sigurinn vannst og Kristján stóð við stóru orðin og hafði lítið fyrir því. Leikmenn voru ekki alveg sáttir við niðurstöðuna enda fannst þeim þjálfarinn njóta sín furðu vel í kókosbolluátinu. Fyrir leikinn gegn FH var bætt um betur og í þetta sinn var skorað á Kristján að fara í ísbað eftir leik ef liðið næði í þrjú stig gegn toppliði deildarinnar. Þetta þótti vel við hæfi en eins og alþjóð veit eru ísböð mjög í tísku í knattspyrnuheiminum þessa dagana. Leikmenn stóðu við sitt og fóru með sigur af hólmi og þá var komið að efndunum. Ekki þarf að spyrja að því að kallinn í brúnni stóð við sitt og skellti sér í ísbað sem stóð í heilar fimm mínútur! Leikmenn og aðstandendur liðsins höfðu gaman af og þótti þetta vel af sér vikið. Nú er bara að sjá hvað mönnum dettur næst í hug og með sama áframhaldi er spurning hvort Kristján lifir sumarið af...
Myndir: Jón Örvar