Ógeðisdrykkurinn rann ljúflega...
Eftir að hafa staðist tvær áskoranir leikmanna fyrr í sumar þurfti Kristján þjálfari enn að standa við stóru orðin eftir sigurinn gegn Grindavík. Fyrst voru það kókosbollur og svo ísbað en í þetta skipti voru leikmenn komnir í gagnfræðaskólagírinn og ógeðisdrykkur skyldi það vera. Innihaldslýsingin var einstaklega glæsileg: síld, hrá egg, sweet chili, tabasco, mjólk og hrútspungar! Einhverjar sögur voru reyndar um að sigin ýsa hefði fengið að fljóta með. Kristján renndi drykknum niður, gretti sig aðeins og bað um meira... Það er ljóst að hópurinn þarf að gera enn betur með næstu áskorun og gera eina tilraun enn. Þegar er farið að ræða nokkra möguleika og eru menn á því að ef Kristján stenst næstu áskorun sé hann einfaldlega ekki mennskur. Kristján lýsti hins vegar mikilli ánægju með drykkinn og er þegar farinn að ræða um að setja hann á markað undir heitinu "Þjálfaradrykkurinn". Einhverja grunaði að ekki væri allt með felldu og Friðrik framkvæmdastjóri tók að sér að smakka líka. Eftir því sem við vitum er hann ennþá uppistandandi...
Myndir: Jón Örvar