Okkar menn í útlöndum
Ég tók hring í morgun og hringdi í „okkar menn“. Ég náði aðeins í Harald Frey og Stefán Gíslason. Haraldur Freyr var sprækur, nývaknaður og var að læra norsku með því að horfa á barnaefni í sjónvarpinu. Þau skötuhjúin Haraldur og Inga Lára voru bæði að spila um helgina með sínum liðum. Aalesund lék æfingaleik gegn lítt þektu liði og gerði jafntefli 1-1, Haraldur lék allan leikinn og stóð fyrir sínu. Mikil meiðsli hrjá leikmenn Aalesund en 8 leikmenn eru á sjúkralista um þessar mundir. Fyrsti leikurinn í deildinn verður 10. apríl á móti meisturum síðasta áratugar Rosenborg og fá leikmenn Aalesund sannkallaða eldskírn í fyrsta leik. Inga Lára lék með liði sínu Fortuna æfingaleik sem vannst 4-1 og skoraði Inga Lára eitt marka Fortuna. Haraldur Freyr sagði að allt væri gott að frétta, pabbi og mamma voru búin að senda þeim páskaegg svo þeim væri ekkert að vanbúnaði að halda páskana hátíðlega. Í Noregi eru engin páskaegg en þess í stað salgætiskanínur sem Haraldi fannst lítið til koma. Þau báðu fyrir kveðjur til allra með ósk um gleðilega páskahátíð.
Stefán var brattur, fjölskyldan komin í heimsókn og Harpa gaf honum páskaegg nr. 7. En það verður lítill tími til að njóta samvista með fjölskyldunni því Stefán heldur í fyrramálið (23. mars) til móts við landsliðið í Króatíu. Þar verður leikið við heimamenn í riðlakeppni Heimsmeistaramótsins og síðan tekur við æfingaleikur við Ítali í Padova 30 mars. Þaðan fer Stefán til Spánar en leikmenn Lyn verða þar í æfingabúðum fram að mótsbyrjun í Noregi. Um síðustu helgi lék Lyn við Bodö/Glimt í Bodo og unnu 2-1. Fyrsti leikur Lyn í deildinni verður á móti Fredrikstd og sagði Stefán að ekkert nema sigur kæmi til grein í fyrsta leik. Stefán og fjölskylda báðu fyrir kveðjur og gleðilega páska til allra heima á Íslandi.
Ekki náðist í Hjálmar hjá Gautaborg, Jóhann B. hjá Örgryte né Þórarinn Brynjar í Aberdeen. ási