Fréttir

Knattspyrna | 13. ágúst 2008

Ómar bestur í 15. umferðinni

Í sumar hefur fótbolti.net valið leikmann hverrar umferðar í Landsbankadeildum karla og kvenna og 1. og 2. deild karla.  Þetta er skemmtilegt framtak sem gaman hefur verið að fylgjast með.  Í síðustu umferð Landsbankadeildar karla var það frammistaða Ómars okkar Jóhannssonar gegn Skagamönnum sem þeir fótbolta.net-menn hrifust af eins og fleiri.  Í tilefni þess birta þeir umfjöllun og viðtal við Ómar en í viðtalinu ræðir hann m.a. um hlut stuðningsmanna Keflavíkur í velgengni liðsins.  Þetta er annað skiptið í sumar sem leikmaður Keflavíkur verður fyrir valinu en í 11. umferðinni hlaut Hólmar Örn þennan heiður fyrir frammistöðu sína í 2-0 útisigri á Fram.  Það fór ekki fram hjá neinum að Ómar átti sannkallaðan stórleik gegn ÍA og hélt Keflavík lengi vel inn í leiknum gegn stórsókn Skagamanna. 

Ómar hefur verið í góðu formi í sumar og átt þó nokkra stórleiki.  Það kemur kannski á óvart í ljósi þess að Keflavík hefur fengið á sig 22 mörk í sumar sem er 6. besti árangurinn í deildinni þó liðið sé í 2. sætinu.  Þá hefur liðið aðeins haldið hreinu í þremur leikjum.  Það geta flestir verið sammála um að þessar tölur segja meira um leikstíl Keflavíkurliðsins sem byggist auðvitað fyrst og fremst á sóknarleik en liðið er búið að skora 36 mörk í sumar.  Ómar og aðrir leikmenn í öftustu víglínu hafa svo sannarlega staðið fyrir sínu og yfirleitt fengið góða dóma og einkunnir fjölmiðla fyrir sinn leik.  Guðjón bakvörður var t.d. valinn í úrvalslið 8.-14. umferðar Landsbankadeildarinnar og var einnig í úrvalsliði 1.-7. umferðar.

Við óskum Ómari til hamingju með leikinn og viðurkenninguna og treystum því að pilturinn haldi áfram á sömu braut enda er spennandi barátta framundan.


Ómar átti stórleik gegn ÍA.
(Mynd: Jón Örvar)