Fréttir

Knattspyrna | 11. nóvember 2003

Ómar í landsliðshópnum

Ómar Jóhannsson er í landsliðshópi Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar fyrir vináttuleikinn gegn Mexíkó í næstu viku.  Ómar er annar tveggja nýliða í landsliðinu en hinn er Kristján Örn Sigurðsson úr KR.  Leikurinn fer fram í San Francisco miðvikudaginn 19. nóvember.

Óhætt er að segja að Ómar bætist þar með í fríðan hóp markvarða úr Keflavík sem hafa náð í landslið Íslands.  Þeir eru Kjartan Sigtryggsson (1 landsleikur), Þorsteinn Ólafsson (16 leikir), Þorsteinn Bjarnason (28 leikir), Bjarni Sigurðsson (41 leikur) og Ólafur Gottskálksson sem lék 9 landsleiki.  Þessir kappar léku reyndar ekki allir með Keflavík þegar þeir léku með landsliðinu.  Auk þess lék Gunnleifur Gunnleifsson landsleiki á meðan hann var í okkar herbúðum.

Við óskum Ómari til hamingju með áfangann og vonum að hann fái að spreyta sig í leiknum.