Fréttir

Knattspyrna | 10. október 2011

Ómar og Fanney Þórunn best

Ómar Jóhannsson og Fanney Þórunn Kristinsdóttir eru leikmenn ársins hjá Keflavík en valið var tilkynnt á lokahófi meistaraflokka og 2. flokka sem haldið var í Bláa lóninu sunnudaginn 9. október.  Á hófinu voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu sumarsins en auk þess var liðsstjórnum og fleirum þakkað fyrir vel unnin störf í sumar.

Eins og áður sagði er Ómar Jóhannsson leikmaður ársins hjá meistaraflokki karla en Arnór Ingvi Traustason var valinn efnilegasti leikmaðurinn.  Jóhann Birnir Guðmundsson fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaðurinn og Hilmar Geir Eiðsson fékk silfurskóinn.  Jóhann Birnir fékk einnig viðurkenningu fyrir 100 leiki með Keflavík, Einar Orri Einarsson og Magnús Þórir Matthíasson fengu viðurkenningar fyrir 50 leiki en þess má geta að Haraldur Freyr Guðmundsson náði einnig 100 leikja áfanganum með Keflavík á þessu sumri.  Jóhann Birnir Guðmundsson fékk svo viðurkenningu fyrir mark ársins sem kom gegn Þór í síðustu umferð Pepsi-deildarinnar.

Hjá meistaraflokki kvenna var Fanney Þórunn Kristinsdóttir valinn leikmaður ársins, Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir var efnilegust og Karitas S. Ingimarsdóttir besti félaginn.  Nína Ósk Kristinsdóttir fékk gullskóinn fyrir flest mörk en þar á eftir kom Agnes Helgadóttir og fékk silfurskóinn.  Þær Agnes Helgadóttir, Nína Ósk Kristinsdóttir og Rebekka Gísladóttir fengu allar viðurkenningar í tilefni af því að þær léku sinn 50. leik í sumar.

Leikmenn og aðstandendur 2. flokks karla fengu viðurkenningu í tilefni bikarmeistaratitils.  Bojan Stefán Ljubicic og Magnús Þór Magnússon voru valdir leikmenn ársins hjá flokknum, Daníel Gylfason var efnilegastur og Sigurbergur Elisson besti félaginn.

Hjá 2. flokki kvenna var Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir valinn besti leikmaðurinn, Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir efnilegasti leikmaðurinn og Heiða Helgudóttir besti félaginn.

Í eldri flokki karla var Zoran Daníel Ljubicic besti leikmaðurinn og Kristján Geirsson varð markakóngur.

Hér má sjá fleiri myndir frá lokahófinu.


Fanney Þórunn og Ómar með viðurkenningar sínar.