Fréttir

Knattspyrna | 17. júní 2006

Öruggur og sanngjarn sigur

Eins og á síðasta ári hefst Evrópuævintýri Keflavíkurliðsins með látum en okkar strákar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu lið Dungannon Swifts 4-1 á Keflavíkurvelli.  Keflavíkurliðið var einfaldlega miklu sterkara, liðið lék oft ágætan fótbolta og skoraði góð mörk.  Írarnir voru ekki sannfærandi; leikmenn liðsins eru líkamlega sterkir en virkuðu þungir og náðu sjaldan að leika markvissan bolta. 

Keflavík lék betur strax í upphafi leiksins og náðu forystunni strax á 16. mínútu.  Og markið var ekki af verri endanum; fljótt tekið innkast og boltinn barst á Símun við vítateigshornið.  Pilturinn var ekkert að tvínóna við hlutina og sendi boltann með glæsilegu skoti efst í fjærhornið.  Eftir markið jafnaðist leikurinn nokkuð en okkar menn höfðu þó undirtökin.  Leikmenn Dungannon komust næst því að skora þegar Ómar varði aukaspyrnu í stöngina þegar boltinn stefndi neðst í bláhornið.  Keflavíkurliðið átti þó nokkrar góðar sóknir og komst næst því að skora þegar Hólmar skaut rétt framhjá eftir að vörn gestanna hafði verið tætt í sundur. 

Okkar strákar hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti, léku ágætisbolta og yfirspiluðu gestina á köflum.  Næsta mark kom á 67. mínútu.  Eftir laglega sókn renndi Magnús boltanum inn fyrir vörnina þar sem Guðmundur fyrirliði kom askvaðandi og skoraði af miklu öryggi.  Sex mínútum síðar var staðan orðin 3-0.  Jónas tók þá aukaspyrnu og lyfti boltanum inn í teiginn þar sem Guðmundur og Baldur voru báðir togaðir niður.  Dómarinn benti umsvifalaust á vítapunktinn og Guðmundur setti hann örugglega.  Þegar þarna var komið við sögu var mótlætið farið að fara í taugarnar á leikmönnum Dungannon og einum þeirra var vikið af leikvelli fyrir að sparka Hólmar niður.  Á 80. mínútunni kom svo fjórða mark Keflavíkur.  Eftir laglega sókn upp miðjuna gaf Jónas skemmtilega hælspyrnu á Magnús sem renndi sér í gegnum vörnina og lagði boltann í markið.  Staðan orðin 4-0 og útlitið vænlegt.  En írska liðið gafst ekki upp og tókst að skora mark undir lokin.  Það gerði Jonathan Montgomery með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu.  Boltinn endaði efst í bláhorninu, stórglæsilegt mark.

Eftir þennan stórsigur erum við með góða stöðu fyrir seinni leikinn um næstu helgi.  En Dungannon er komið með útimark og mæta örugglega dýrvitlausir til leiks. 

Keflavíkurvöllur 17. júní

Keflavík 4 (Símun Samuelssen 16., Guðmundur Steinarsson 67., víti 73., Magnús Þorsteinsson 80.)
Dungannon Swifts 1 (Jonathan Montgomery 87.)

Keflavík (4-4-1-1):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Baldur Sigurðsson, Geoff Miles - Símun Samuelssen (Ólafur Jón Jónsson 86.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Daniel Severino (Branko Milicevic 68.) -Magnús Þorsteinsson (Stefán Örn Arnarson 84.) - Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Þorsteinn Georgsson, Ólafur Þór Berry, Hallgrímur Jónasson
Gul spjöld: Baldur Sigurðsson (27.), Guðjón Antoníusson (87.)

  

Dómari: Peter Rasmussen
Aðstoðardómarar: Henrik Sonderby og Lars Christoffersen
Fjórði dómari: Einar Sigurðsson
Eftirlitsmaður UEFA: Michel Pralong

 

 

 


Jónas og Mete í baráttunni en þeir áttu stórleik eins og allt Keflavíkurliðið.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir
)