Öruggur sigur á Fjölni
Keflvíkingar sigruðu Fjölnismenn 3-1 í gærkvöldi, og var sigurinn öruggur og sanngjarn. Það var Magnús Þórir Matthíasson sem skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu með skalla eftir snilldarfyrirgjöf frá Herði. Magnús Þorsteinsson skoraði svo gott mark á 21. minútu eftir fyrirgjöf frá Simun. Staðan 2-0 í hálfleik og Keflavík betri á öllum sviðum. Á 83. mínútu skoraði svo Haukur Ingi Guðnason þriðja markið eftir góða sókn en Haukur Ingi hafði rétt áður komið inn á sem varamaður. Fjölnismenn fengu svo vítaspyrnu á 85. mínútu eftir að Lasse braut af sér í teignum. Gunnar Már Guðmundsson skoraði örugglega úr vítaspyrnunni.
Öruggur sigur í höfn og Keflavík er nú í 3.-5. sæti deildarinnar með 14 stig, sjö stigum á eftir toppliði FH sem vann Þrótt 4-0. Næsti leikur Keflavíkur er gegn Þrótti á fimmtudaginn á Sparisjóðsvellinum og hefst leikurinn kl 19:15.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Símun Samuelsen, Einar Orri Einarsson, Nicolai Jörgensen (Haukur Ingi Guðnason 72.), Hörður Sveinsson (Viktor Guðnason 82.) og Magnús Þórir Matthíasson (Jón Gunnar Eysteinsson 52.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson markvörður, Magnús Þór Magnússon, Tómas Karl Kjartansson, Bessi Víðisson.
Dómari: Eyjólfur Kristinsson.
Áhorfendur: 837.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með þeirra leyfi.
Kristján Guðmundsson var að vonum sáttur með leik sinna manna eftir sigur á Fjölni í kvöld.
„Ég er mjög ánægður með leikinn. Við settum það upp að við vildum gefa það út að við vildum vera í efri hlutanum með því að vinna þennan leik. Fjölnir sótti hér þrjú stig í fyrra og við vildum sýna fólkinu og okkur sjálfum fyrst og fremst að við viljum vera í efri hlutanum," sagði Kristján í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn
Keflvíkingar töpuðu illa á móti KR í síðustu umferð og vildu greinilega bæta fyrir það með góðum leik í dag og ætluðu sér augljóslega sigur frá fyrstu mínútu leiksins.
„Við lögðum það upp að nálgast meira Keflavíkurliðið eins og það hefur verið að spila undanfarin misseri. Það er að vera ákveðnir í byrjun leikjanna og skora snemma og sína það að við viljum sækja. Það gerðum við svo sannarlega í dag og skorum á tvö mörk á fyrstu 20 mínútunum."
Aðspurður um hvort að það hefði verið ætlunin að bakka í seinni hálfleik og verja stöðuna svaraði Kristján.
„Það er ekkert upplegg að bakka. Það bara gerist ósjálfrátt þegar við sendum boltann of oft á varnarmenn Fjölnis að þá hörfa menn aðeins til baka. En við áttum að halda boltanum betur um miðbik seinni hálfleiksins."
Haukur Ingi Guðnason kom inn á sem varamaður og skorar mark mjög fljótlega. Spurður um hvort að Haukur Ingi yrði framvegis notaður sem varamaður svaraði Kristján
„Ég held að það verði bara bæði og. Við þurfum að fara varlega með hann og ef hann gerir þetta í hvert skipti sem honum er skipt inná að þá er það fínt. En hann skorar líka þegar hann byrjar inná."
Á morgun verður dregið bæði í Visa bikarnum sem og Evrópukeppninni en þar eru Keflvíkingar í báðum pottum. Aðspurður um hvort að Keflvíkingar ættu sér óskamótherja í Visa bikarnum.
„Ég held að það borgi sig ekki að tjá sig um það en ég hef svona ákveðna tilfinningu fyrir því hvar við lendum, sagði Kristján og glotti en hann vill ekkert gefa það upp? „Nei en ég veit það að við erum óskamótherjar á nokkrum stöðum".
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir
Piltarnir okkar ganga til leiks.
Keflavíkurliðið í öllu sínu veldi.
Hörður með frábæra fyrirgjöf...
...og Magnús skorar með skalla, 1-0.
Magnús fagnar ógurlega.
Magnús Sverri að koma Keflavík í 2-0.
Og nokkuð sáttur með það.
Marki Hauks Inga vel fagnað.
Strákarnir þakka fyrir sig.