Öruggur sigur hjá Keflavík eldri gegn HK
Eldri flokkur Keflavíkur lék fyrsta leik sinn á Íslandsmótinu í gær (þriðjudag) gegn HK. Leikið var á gervigrasvelli HK í Fagralundi við frábærar aðstæður, gott veður og góður völlur. Keflavíkurpiltarnir unnu mjög öruggan og sanngjarnan 1-5 sigur. Sigurinn hefði getað verið miklu stærri en leikmenn voru með eindæmum ryðgaðir upp við mark HK manna. Jakob Már Jónharðsson gerði fyrsta mark leiksins á 4. mínútu með hörkuskoti. Tækni og fimi Jakobs komu vel í ljós en hann klippti boltann á lofti og afgreiddi hann í netið af miklu öryggi. Næsta mark kom fimm mínútum síðar, þar var að verki Kristján Geirsson en hann skoraði eftir mikinn atgang í teig HK. Í upphafi síðari hálfleiks var Jakob Már aftur á ferðinni en hann læddi knettinum skemmtilega í netið eftir góða fyrirgjöf frá hægri. Næstu mínútur einkenndust mjög af áfergju Jakobs að ná „þrennunni“ sem tókst því miður ekki í þetta sinn! Kristinn Guðbrandsson spilaði heldur framarlega í síðari hálfleik og var tíður gestur í teig andstæðinganna. Það skilaði árangri um miðjan hálfleikinn en þá setti Kristinn mark með „hörkuskoti“ úr miðjum vítateignum og það með VINSTRI fæti! Um fimm mínútum fyrir leikslok var komið að Zoran Daníel Ljubicic en þá tætti hann vörn HK-manna í sig að hætti Maradona. Hann lék á hvern HK-manninn á fætur öðrum og endaði á því að renna boltanum í autt markið, stórkostlegt mark hjá Zoran og litu varnarmenn HK hræðilega illa út í þessu marki. Rétt áður en flautað var til leiksloka náðu HK menn að svara fyrir sig með einu marki. Lokastaðan 1-5. Heilt yfir var leikur Keflavíkurpilta mjög góður, boltinn fékk að ganga manna á milli (nema þegar Jakob var að reyna að ná „þrennunni“) og sáust margir gamlir og skemmtilegir taktar. Úthald og líkamsástand var misgott hjá leikmönnum en það getur bara batnað. Næsti leikur er gegn Stjörnunni þriðjudaginn 19. júní og verður leikið í Keflavík.
Hvað skoruðum við mörg mörk? En HK?
![]() |
Maður leiksins: Jakob Már Jónharðsson. Jakob lék sem framherji í þessum leik og var mjög beinskeittur og hættulegur í teig HK manna. Hann var ekki langt frá því að ná þrennunni en hafði ekki heppnina með sér, ekki vantaði færin. Spurning hvort Jakob hafi verið á vitlausum enda vallarins allan sinn feril? |
![]() |
Tilþrif leiksins: Zoran Daníel Ljubicic. Fíflaði vörn HK manna í aðdraganda að marki sínu. Leikmenn HK vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara. Maradona, Messi....Zoran! |
![]() |
Hlaupagikkurinn: Haukur Benediktsson. Er í fantaformi og fór upp og niður kantinn eins og táningur. |
![]() |
Mark leiksins: Þrumufleygur Kristins Guðbrandssonar með VINSTRI fæti. Markvörður HK átti ekki möguleika enda skotið hnitmiðað eins og vítið gegn ÍBV 1997. |
Efri röð frá vinstri: Steinbjörn Logason liðsstjóri, Gunnar Magnús Jónsson, Kristinn Guðbrandsson,
Kristján Geirsson, Jón Ingi Jónsson, Guðni Hafsteinsson, Hjörtur Harðarson, Garðar Már Newman og Jóhann Steinarsson.
Neðri röð frá vinstri: Sigmar Scheving, Jóhann Magnússon, Zoran Daníel Ljubicic, Jakob Már Jónharðsson,
Haukur Benediktsson og Ólafur Þór Gylfason. Á myndinni eru einnig "Lukku-pollar" liðsins.
Garðar Már og Kiddi standa vaktina í vörninni. Kiddi brá sér þó af vaktinni í seinni hálfleik.
Haukur stígur léttan bolta-dans ásamt varnarmanni HK.
Kiddi á sjaldgæfum slóðum ! Við mark andstæðinganna í leit að marktækifæri.
Jakob Már að þefa upp marktækifæri, ekki skoraði hann í þessari sókn.
Krissi Geirs rýnir í leikstíl andstæðinganna.
Simmi gríðarlega einbeittur á svip. Er hola í vellinum?