Fréttir

Öruggur sigur hjá stelpunum gegn Grindavík
Knattspyrna | 10. apríl 2016

Öruggur sigur hjá stelpunum gegn Grindavík

Keflavíkurstelpurnar spiluðu gegn grönnum sínum úr Grindavík í Lengjubikarnum í dag, sunnudag. Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnar í 3-0 eftir 21 mínútna leik.  Það var markadrottningin Sveindís Jane Jónsdóttir sem skoraði fyrsta markið á 7. mínútu eftir frábæra sókn og fyrirgjöf frá Evu Lind Daníelsdóttur. Amber Pennybaker, nýr leikmaður liðsins, var svo á ferðinni þremur mínútum síðar og skoraði þá með góðu skoti frá vítateigslínu eftir hnitmiðaða sendingu frá Unu Margréti Einarsdóttur. Una Margrét sá svo sjálf um að þenja netmöskvana á 21. mínútu, eftir hornspyrnu barst knötturinn á lofti út að vítateig, þar var Una og smellhitti boltann, 3-0. Grindvíkingar minnkuðu muninn á 33. mínútu með marki frá Dröfn Einarsdóttur. Amber gerði svo sitt annað mark á 44. mínútu eftir glæsilegt einstaklingsframtak sem lauk með hörkuskoti upp undir þverslána. Staðan því 4-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleik gerðu liðin sitt hvort markið. Dröfn var aftur á ferðinni hjá Grindavík á 55. mínútu en varnarjaxlinn Kristrún Ýr Holm lokaði leiknum á 83. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu frá Anitu Lind Daníelsdóttur.

Stelpurnar fara vel af stað í Lengjubikarnum, hafa unnið 2 fyrstu leikina sína. Næsti leikur hjá stelpunum er gegn Fjölni, í Egilshöll, n.k. föstudag. 

Leikskýrsla úr leiknum gegn Grindavík


Markaskorarar dagsins: Sveindís Jane, Kristrún Ýr, Amber og Una Margrét.