Fréttir

Knattspyrna | 30. apríl 2008

Óstöðvandi Íslandsmeistarar!

Það fær ekkert stöðvað körfuboltalið Keflavíkur þessa dagana.  Eftir sex sigra í röð í úrslitakeppninni bætti liðið þeim sjöunda við með sigri á fóboltaliðinu í hinu árlega einvígi liðanna í gær.  Fyrir leikinn færðu forsvarsmenn knattspyrnunnar félögum sínum í körfunni blóm og hamingjuóskir með Íslandsmeistaratitilinn sem vannst á dögunum.

Svo virtist sem fótboltaliðið hefði engar áhyggjur af leiknum því að þegar körfuliðið mætti til leiks voru fótboltastrákarnir að þreyta þolpróf!  Það átti eftir að koma þeim í koll í leiknum og sást það strax í upphafi þegar karfan smellti einni 3ja stiga í grillið á fótboltanum án þess að þeir fengju rönd við reist.  Það tók fótboltann smátíma að finna taktinn og þegar um 15 mínútur voru til loka fyrri hálfleiks þá voru þeir komnir í gang og röðuðu inn mörkum.  Liðið minnkaði muninn í 8 mörk en karfan fékk 15 mörk í forskot og þar við sat í leikhléi.  Seinni hálfleikur byrjaði ágætlega, karfan varðist fimlega og beitti eitruðum skyndisóknum með Sigga Ingimundar á toppnum.  Siggi var að klára færin sín ásamt því að leggja samherja sína upp hvað eftir annað (spurning að athuga hvort hann sé á lausu fyrir sumarið).  Fótboltinn reyndi að klóra í bakkann undir lok leiks en án árangurs og komust þeir næst körfunni í stöðunni 21-16.  Í lokin voru það Íslandsmeistararnir sem settu nokkur kvikindi og unnu stórsigur 25-17.  Það var athyglisvert að sjá til körfustrákanna í leiknum.  Samvinna, samleikur og  leikgleði einkenndi leik þeirra og mættu fótboltastrákarnir læra mikið af körfunni í þeim efnum því það er greinilegt að þetta eru þættir sem fleyta liðum langt, jafnvel alla leið að Íslandsmeistaratitli...

Myndir: Jón Örvar

 


Liðin stilla sér upp.  Þessi lengst til hægri er í körfunni...


Íslandsmeistararnir fengu blóm og hamingjuóskir fyrir leik.