Óvænt markaveisla gegn Blikum
Eftir hálfgerða þrautagöngu í síðustu leikjum í Landsbankadeildinni sneri Keflavíkurliðið heldur betur við blaðinu á Keflavíkurvelli í kvöld. Niðurstaðan varð 5-0 sigur gegn liði Breiðabliks í 9. umferð deildarinnar. Þessi stórsigur hefur sjálfsagt komið flestum í opna skjöldu enda hafa nýliðar Blika verið að gera góða hluti í deildinni í sumar. Frábær leikur hjá okkar mönnum og gefur góð fyrirheit fyrir þá miklu törn sem framundan er í deild, bikar og Evrópukeppni.
Það voru reyndar gestirnir sem voru ákveðnari í upphafi leiks og Keflavíkurliðinu gekk illa að komast í takt við leikinn. En það breyttist skyndilega á 15. mínútu. Símun átti þá fasta fyrirgjöf frá vinstri sem rataði í gegnum markteiginn og Stefán Örn var mættur á fjarstönginni og setti boltann í markið. Fimm mínútum síðar var staðan orðin 2-0. Enn kom sókn upp vinstra megin, Guðmundur átti frábæra sendingu fyrir og þar mætti Baldur og sneiddi boltann efst í markhornið. Vel að markinu staðið og afgreiðslan frábær hjá Baldri. Nú voru okkar menn komnir á fulla ferð og höfðu örugg tök á leiknum án þess að skapa sér áberandi færi. Símun átti reyndar glæsilegt skot sem Hjörvar varði naumlega í horn. En á síðustu mínútu hálfleiksins kom svo þriðja markið. Símun átti enn frábæra fyrirgjöf, Guðmundur skallaði boltann í stöngina og þar henti Stefán Örn sér fram og skoraði af miklu harðfylgi. Vel gert og staðan 3-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki orðinn tíu mínútna gamall þegar staðan var orðin 4-0. Guðmundur tók hornspyrnu frá vinstri og Símun framlengdi hana yfir á fjærstöngina. Þar kom Hólmar Örn á mikilli siglingu, sendi fasta sendingu fyrir markið og Baldur stýrði boltanum í markið. Þegar þarna var komið við sögu voru „strákarnir okkar“ fullir sjálfstrausts og léku af miklu öryggi. Það sást best þegar Guðmundur tók glæsilega hjólhestaspyrnu þó nokkuð utan vítateigs og boltinn fór ekki langt framhjá! Á 73. mínútu kom svo lokamark leiksins. Eftir glæsilegt spil upp hægri kantinn lagði Guðmundur boltann fyrir Jónas, hann sendi laglega inn fyrir vörnina þar Símun var einn og óvaldaður og skoraði með góðu skoti. Á lokakaflanum skiptust liðin á að sækja og voru nokkrum sinnum nærri því að skora. M.a. átti Marel Baldvinsson, markahæsti leikmaður Landsbankadeildarinnar, tvö góð færi. Fyrst skaut hann rétt framhjá og skallaði svo beint á Ómar í markinu þegar hann var óvaldaður á markteignum. En stórsigur okkar manna staðreynd og það þarf ekki að fara mörgum orðum um frammistöðuna í þessum leik, lokatölurnar segja allt sem segja þarf.
Keflavíkurvöllur 28. júní
Keflavík 5 (Stefán Örn Arnarson 15., 45., Baldur Sigurðsson 19., 53., Símun Samuelsen 73.)
Breiðablik 0
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson (Ragnar Magnússon 77.) - Hólmar Örn Rúnarsson (Einar Orri Einarsson 75.), Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Stefán Örn Arnarson (Magnús Þorsteinsson 66.), Guðmundur
Varamenn: Magnús Þormar, Branko Milicevic, Viktor Guðnason, Þórarinn Kristjánsson
Dómari: Eyjólfur M. Kristinsson
Aðstoðardómarar: Pjetur Sigurðsson og Einar K. Guðmundsson
Eftirlitsmaður: Eysteinn B. Guðmundsson
Baldur stýrir boltanum í markið og staðan orðin 4-0.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)