Fréttir

Knattspyrna | 20. maí 2005

Pistill: Upprifjun á bikarmeistaratitlinum 1997

Ég hef aldrei verið góður í fótbolta, hreinlega drullu lélegur ef ég á að vera hreinskilinn.  Var alltaf sá sem var valinn síðastur í lið í leikfimi.  Það kom mjög flótlega í ljós að minn afreksferill yrði mjög stuttur inná vellinum. 

 

En þótt svo fótboltahæfileikar mínir séu af álíka skornum skammti og bros hrukkur hjá Halldóri Ásgrímssyni, þá veikti það ekkert áhuga minn fyrir íþróttinni.  Þeir sem til mín þekkja vita að ég hef fylgst náið með Keflavík í körfubolta og fótbolta.  Hef meira segja mætt á handboltaleik þegar Keflavík og Njarðvík voru með sameiginlegt lið.  Þá kom ég þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og staðan jöfn, og skoruðu andstæðingarnir 5 mörk í röð eftir að ég kom.  Ég sá þá að stuðningur minn við handboltann yrði honum seint til framdráttar.

 

Eftir óteljandi sigra og bikara í körfunni þá hefur þörf mín fyrir að verða vitni á því að sjá bikara á loft í fótboltanum vaxið með hverju árinu og ætla ég því að rifja upp þegar bikar fór á loft hjá meistaraflokk Keflavíkur eftir 22 ára bið. 

 

1997 var ég að vinna í Reykjavík hjá Tæknival, en þar vann ógrynni af KR-ingum og Eyjamönnum, en það voru tvö sterkustu liðin þetta ár.  Um vorið urðum við íslandsmeistarar í körfu en fólkið í Reykjavík tók ekki eftir því.  Einu tengsl vinnufélagana í Reykjavík við körfubolta var að nokkrir höfðu séð White man cant jump, á gullaldarskeiði Wesley Snipes.  Um leið og fótboltinn byrjaði þá kom í ljós að það voru ekki bara sölumenn, tæknimenn, lagermenn, og yfirmenn sem unnu þarna.  Heldur Framarar, KR-ingar, Eyjamenn, Þróttarar, Valsarar og svo vorum við tveir Keflvíkingar.  Menn ræddu endalaust um fótbolta, næstu leiki, síðustu leiki, um leikmenn, vellina og hvað sem er.  Eftir frábæra byrjun þetta tímabil dalaði nú heldur betur gengi okkar manna og enduðum við í sjötta sæti. 

 

En við komumst í Bikarúrslitaleik á mót ÍBV.  Þetta ár reiknaði enginn með öðru en að ÍBV myndi vinna.  Leikurinn var 31. ágúst og ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma.  Eins og lög gera ráð fyrir þá var framlengt og í fyrri hálfleik framlengingar skoruðu Eyjamenn, og menn héldu að þeir væru að fara lyfta bikarnum.  En Gestur nokkur Gylfason komst í gott færi undir lok leiksins og ætlaði heldur betur að þruma boltanum í netið en ekki vildi betur til en að hann sparkaði hressilega í grasið fyrir framan boltann, svo það var álíka líklegt að þessi bolti myndi hafna í netinu eins og að ég væri fenginn til að sitja fyrir í Playboy.  En á einhvern ótrúlegan hátt rúllar boltinn hægt og rólega framhjá tveim varnarmönnum, og svo undir markmanninn Gunnar (undir) Sig.  Á mynd sem ég var lengi með upp á vegg hjá mér sést Gestur snúa baki í markið krjúpandi á hnjánum og berjandi í grasið sannfærður um að hafa klúðrað síðasta færi leiksins.  Í stúkunni var ég og trúði vart eigin augum og aukaleikur var staðreynd. 

 

Seinni leikurinn var svo spilaður 5. oktober og í minningunni var þetta einn kaldasti dagur sem ég hef upplifað.  Líkurnar á því að við myndum vinna voru kannski ekki háar, en möguleikinn var fyrir hendi, svo ég dróg konuna mína með á leik en þess ber að geta að hún hefur jafnmikin áhuga á fótbolta og ég hef á servettusöfnun.  Eftir venjulegan leiktíma, og framlengingu var ekki búið að skora viðurkennt mark.  Við skoruðum að vísu mark sem var löglegt að mínum dómi en var dæmt af.  Svo vítaspyrnukeppni var staðreynd.   Ég ætla ekkert að rifja upp hverjir skoruðu en tek fram að nýju að hitinn var kominn svo langt niður að lengi leit út fyrir að leikmenn og áhangendur yrðu veðurteppt í bænum vegna frosts.  Mér var orðið kalt inn að mænu en hef sjaldan orðið eins spenntur.  Í vítaspyrnukeppninni var öll stúkan var staðin upp, og eftir klúður hjá eyjamönnum kom sú staða upp að með marki frá okkur yrðum við bikarmeistarar.  Það var komið fram í bráðabana og í stúkunni stóð tíminn kyrr og maður beið spenntur eftir því hver myndi taka þessa þýðingamiklu spyrnu.  Þá gekk útúr hópi skeggprúðra leikmanna liðsins Kristinn nokkur Guðbrandsson.  Kristinn er sæmilega hávaxinn og sterklega byggður en þegar hann gekk þessi skref að vítapunktinum þá virkaði hann í mínum augum mun stærri og breiðari en hann hefur nokkru sinni verið.  Þessi skref sem tók hann að ganga að punktinum virtust taka heila eilífð þó þau hafi í mesta lagi verið tíu sekúndur..  Þó svo ég hafi bara séð aftan á Kidda þegar hann stillti sér þarna upp þá hef ég aldrei séð neinn vera eins ákveðinn, og ég sá ekki einusinni framan í hann!  Miðað við það sem ég sá, þá hefði ég ekki viljað vera í markinu.  Ef  ég hefði verið í sporum Gunnars Sig. þá hefði ég eflaust bara brotnað saman og farið útí horn í markinu og farið að gráta, sett lappirnar undir mig í fósturstellingunni og sogið puttann.  Eins og allir vita þá afgreiddi Kiddi boltann í netið og á broti úr sekúndu vorum við orðnir Bikarmeistarar eftir 22 ára bið.  Sú sælutilfinning sem hríslaðist um mann hlýnaði manni á örskotsstundu og þessir þrír tímar sem höfðu farið í það að standa og horfa á lengstum frekar leiðinlegan fótboltaleik eru nú í minningunni stæðsta stund sem ég hef upplifað á vellinum.  Takk fyrir mig Keflavíkurliðið 1997 og sérstaklega Kiddi Guðbrands.

   

Áfram Keflavík

Rúnar I. Hannah.

Stuðningsmannasíða Keflavíkur