Fréttir

Knattspyrna | 17. apríl 2009

Portúgal-ferð - Pistill 1

Jæja þá, hér kemur pistill eitt af för leikmanna og liðsstjórnar Keflavíkur til Portúgals.  Það voru þreyttir leikmenn Keflavíkur sem komu loks á hotel Montechoro, Albufeira á miðvikudaginn eftir alls 12 tíma ferðalag.  Menn voru þó fljótir að koma sér fyrir í herbergjunum, borða, og finna sér gott stæði til þess að horfa á leik Porto og Manchester United.  Sumir voru orðnir ansi stressaðir fyrir þennan leik því stórhætta þótti vera á ferðum um að United myndi verða slegið út úr keppninni.  Mikil stemmning var hjá  Portúgölunum á hótelinu fyrir leiknum því þeir bjuggust við sigri Porto á stórveldi United.  Það varð þó ekki raunin og létti mörgum stuðningsmanninum hér í hópnum sem gátu sent frá sér skemmtileg sms á vini og ættingja.

Í gær, fimmtudag, fóru tvær fyrstu æfingarnar fram.  Allir leikmenn tóku þátt í æfingunum og gengu þær stórvel.  Aðstaðan til æfinga er til fyrirmyndar og leikmennirnir njóta  þess að æfa  á rennisléttu grasinu við 18 gráðu hita og hálfskýjuðu, með eina álmu af herbergjum út af fyrir sig til hvíldar. 

Innanhópskeppnin hófst seinni partinn í gær.  Í fyrstu keppni, sem var skallaboðhlaup, sigruðu Óskabörnin glæsilega án þess að fipast nokkuð á leiðinni og hlutu því fyrstu 4 stig mótsins.  Í öðru sæti varð lið Grilla og hlutu 3 stig, í 3ja sæti Færeyjar með 2 stig og lestina ráku meistarar United og hlutu þeir 1 stig.  Liðsstjórnin stóð sig framúrskarandi vel við dómgæslu keppninnar og hlaut fyrir 5 stjörnur. 
Liðin eru þannig skipuð: 
Óskabörnin: Sigurður, Haukur Ingi, Jón Gunnar, Magnús Sverrir og Gísli Örn. 
Grilli: Magnús Þór, Hólmar, Hörður, Högni, Magnús Þormar og Lasse. 
Færeyjar: Sigurbergur, Símun (kemur á óvart!), Brynjar, Bjarni Hólm og Bessi. 
United: Tómas, Jóhann B., Guðjón, Magnús Matt og Einar Orri.
Næstu tvær keppnir verða í dag, föstudag og verður önnur keppnin í ískaldri hótellauginni.

Nánar síðar, þangað til næst, bestu kveðjur heim…