Portúgal-ferð - Pistill 3
Laugardagsmorgunn og leikmenn vaknaðir snemma. Morgunmatur kl. 7:30 og æfing 9:30. Menn hressir þrátt fyrir tvær æfingar á dag undanfarna daga. Kristján og Einar Ásbjörn voru með góðar æfingar eins og þeim er lagið og Raiko með sínar markmannsæfingar. Þegar ég skrifa þetta þá hugsa ég til Ómars sem er heima á Íslandi og veit hvað sumir þurfa að ganga í gegn um. Tekið var vel á því og menn svitnuðu. Góðri æfingu lauk með keppni í fótboltagólfi í Tumamótinu, keppninni sem hefur allt að segja. Grillarar eru á góðu skriði þessa stundina og Óskabörnin koma sterkir inn. Þessi lið urðu einmitt efst og jöfn í fótboltagólfinu. Staðan eftir fjórar umferðir er því:
Grilli: 15 stig.
Óskabörnin: 12 stig.
United: 10 stig.
Færeyjar: 6 stig.
Eftir hádegið var gefið frí og menn fóru í göngutúra í nágrenninu á meðan sumir voru bara á hótelinu og slöppuðu af. Um kvöldið var komið að skemmtikvöldi leikmanna. Þar voru tekin fyrir atriði nýliða og slógu menn rækilega í gegn. Haukur Ingi startaði kvöldinu með sínum frábæru galdrabrögðum, snillingur drengurinn. Bjarni Hólm og Gísli Örn komu sterkir inn, Bjarni með söng og Gísli Örn með undirleik. Sigurður, Tómas og Magnús Þór stóðu sig einnig mjög vel. Síðan var farið á Karíoki stað og þar tóku nýliðarnir lagið við mikil fagnaðarlæti.
Sunnudagur. Vaknað snemma og menn fengu sér morgunmat. Svo var farið og legið við sundlaugina í smátíma í brakandi sól og blíðu. Æfing kl. 14:00. Mikið spilað og menn tóku vel á því. Í lokin tók Haukur Ingi mannskapinn í hugarþjálfun í nokkrar mínútur. Formaður Þorsteinn og Einar Aðalbjörns sjá svo um að strákarnir fái nóg af vatni og eru duglegir að versla inn. Falur hefur nóg að gera í nuddinu og öðru sem tilheyrir starfi sjúkraþjálfara en við höfum verið virkilega heppnir með meiðsli. Eftir æfingu fóru sumir að horfa á leik Manchester og Everton og aðrir slöppuðu af á hótelinu við sundlaugarbakkann. Einnig hafa strákarnir sem eru í skóla verið duglegir við skriftir og lestur.
Bestu kveðjur heim…
Færeyjar!
Og Óskabörnin!
Þetta er United...
...og Grilli!