Portúgal-ferð - Pistill 6
Miðvikudagur: Síðasti æfingadagur í dag og var mikil keyrsla á æfingunum. Á fyrri æfingunni var farið í gegnum leikfræði liðsins, föst leikatriði o.fl. Á seinni æfingunni var rennt í gegnum leikstöðuna tveir gegn einum og svo var að sjálfsögðu komið að leiknum klassíska seinasta æfingadaginn, Ungir - Gamlir. Þeim leik lauk með 1-1 jafntefli en gamlir unnu í vítakeppni þar sem eldgamli tryggði sigurinn með seinustu vítaspyrnunni.
Lasse fór til Danmerkur í morgun svo Raiko var með Magga Þormar í rólegheitunum. Tumamótið hélt áfram í dag og voru tvær umferðir. Fyrri umferð var í Konnaboðhlaupi þar sem Óskabörnin sigruðu og settu því mikla spennu í toppbaráttu keppninnar því fyrir lokaþrautina voru Óskabörnin og Grilli efst og jöfn. Það var spurningakeppni sem var lokaþraut mótsins og þar komu United sterkir inn og sigruðu, Óskabörn í öðru sæti og Færeyjar í þriðja. Grilli rak lestina, svaraði engri spurningu rétt og þar með urðu Óskabörnin sigurvegarar mótsins. Til hamingju, Óskabörn!
Leikmenn eru allir heilir heilsu þótt vissulega séu menn misþreyttir en ferðin hefur gengið vel og mun skila miklu inn í hópinn fyrir Íslandsmótið sem hefst 11. maí hjá okkur Keflvíkingum. Að sjálfsögðu hlakka allir til þess að koma heim á morgun (fimmtudag) og vonumst við til þess að taka með okkur eitthvað af sólskininu og hitanum sem hér er.