Ragnars minnst
Ragnars Margeirssonar var minnst fyrir leik Keflavíkur og Breiðabliks í Pepsi-deildinni á dögunum en Ragnar hefði orðið fimmtugur á þessu ári. Leikmenn meistaraflokks hafa heiðrað minningu Ragnars í sumar en ferðabolir liðsins þetta sumarið eru tileinkaðir honum. Fyrir leikinn gegn Blikum var Ragnars svo minnst með nokkrum orðum og áhorfendur heiðruðu minningu hans með lófaklappi.
Ragnar fæddist 16. ágúst 1962 og lék með yngri flokkum Keflavíkur. Hann vakti fljótt athygli fyrir mikla knattspyrnuhæfileika og hóf snemma að leika með meistaraflokki. Hann lék fyrsta leik sinn í efstu deild árið 1979 og lék síðast með Keflavík árið 1996. Ragnar lék einnig með KR og Fram hér á landi auk þess að leika með liðum í Þýskalandi, Belgíu og Austurríki. Ragnar lék 46 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim fimm mörk. Hann lést 10. febrúar 2002.