Rajko fertugur
Í dag, mánudaginn 25. ágúst, er þjálfari markverja okkar Rajko Stanisic fertugur. Rajko kom fyrst til landsins vorið 1998 er hann gekk til liðs við Bolungarvík. Hann lék með þeim í nokkur ár þar til hann kom til okkar Keflvíkinga og aðstoðaði við þjálfun markverja okkar ásamt því að starfa hjá Nesprýði. Rajko er mikill dugnaðarforkur og er vel liðinn í Keflavík eða eins og Kristján þjálfari svaraði er heimasíðan spurði hann um Rajko og framlag hans: „Rajko er ómissandi í kringum liðið. Markverðirnir eru í góðu líkamlegu ástandi og tilbúnir til leiks eftir örugga leiðsögn Rajko. Hjá honum eru allir hlutir á hreinu, alltaf mættur á æfingar tilbúinn með bolta, vesti, hatta og allt það sem til fellur við þjálfunina. Við höfum ekki tapað einum einasta bolta seinustu þrjú keppnistímabilin, held meira að segja að við höfum komið út í plús í fyrra... Rajko á svo sannarlega sinn þátt í því að Keflavíkurliðið hefur spilað svo vel undanfarin ár eins og raunin hefur verið. Við óskum honum innilega til hamingju með daginn“.
Heimasíðan tekur svo sannarlega undir með Kristjáni og við vonum að afmælisdagurinn verði Rajko ánægjulegur...
Hér fylgja svo nokkrar hugljúfar kveðjur til afmælisbarnsins og myndir úr safni Jóns Örvars frá ferli Rajko í Keflavík.
„Ég og Rajko erum miklir mátar og höfum fylgt hvor öðrum síðan árið 2004, fórum meira að segja saman til Grindavíkur árið 2005 í stuttan tíma! Rajko er mikill liðsmaður og góður félagi, er með sitt á hreinu og fer ekki mikið út af því spori. Hann er gríðarlega mikilvægur í okkar liðsheild og hefur unnið frábært starf hér í Keflavík. Innilegar hamingjuóskir með daginn.“
Þinn félagi, Magnús Sverrir
„Rajko er frábær félagi og mikill keppnismaður. Hann sættir sig ekki við neitt nema hámarksframmistöðu á hverri æfingu, í hverjum leik og það er aðeins eitt lið sem kemst að hjá honum það er Keflavík. Ég tel að við Keflvíkingar höfum dottið í lukkupottinn þegar Rajko kom til okkar og vona ég að hann verði sem lengst hjá okkur. Rajko, innilega til hamingju með daginn.“
Kveðja, Gummi St.
„Það sem best lýsir Rajko er að hann hefur frá fyrsta degi haft hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Alltaf þegar rætt er við Rajko þá kemur alltaf: „Hvað er best fyrir Keflavík”. Hann er samviskusamur, duglegur og einstaklega þægilegur í öllum samskiptum. Það var hvalreki fyrir Keflavík að fá hann hingað til okkar. TOPP MAÐUR.“
Kveðja, Rúnar V.
„Ég þekki Rajko kannski ekki sérlega vel, hann er frekar fámáll maður og gefur lítil færi á sér. Hann er 100% maður í sinni vinnu, mætir vel og stundar sína vinnu einstaklega vel. Það er gaman að segja frá því að hann kom til mín í sumar og sagði mér að samningur hans við deildina ætti að renna út í haust (eins og ég vissi það ekki!). Hann var alveg með það á hreinu hvað hann vildi fá inn í næsta samning og það tók okkur ca. 3 mínútur að ganga frá nýjum samningi! Þessi maður er öðlingur og hvers manns hugljúfi og 100% Keflvíkingur. Ég óska honum innilega til hamingju með daginn.“
Kveðja, Þorsteinn
„Ef ég þekki Rajko rétt þá heldur hann upp á daginn með því að raða upp nokkrum aukakeilum handa okkur markmönnunum. Hann hefur gaman af því að láta okkur púla. Þegar liðið fer í æfingaferðir á vorin þá er réttara að segja að við markmennirnir förum í æfingaferð, hinir fara í sólina. Kannski fær hann að pína útileikmennina líka í tilefni dagsins, Stjáni gæti ekki gefið honum betri gjöf held ég. Án gríns þá er samt erfitt að finna mann sem er jafn áhugasamur og duglegur í því sem hann gerir, undantekningalaust fyrstur á æfingasvæðið og svo síðastur af því. Hann hefur ekki bara gert mikið fyrir okkur markmennina hérna í Keflavík, heldur allt liðið.“
Kveðja, Ómar
Rajko Stanisic.
Með Stjána, Kidda og Dóa gegn Dungannon á N-Írlandi 2006.
Með Stjána og Kidda að fara yfir leik hjá Lilleström í Noregi 2006.
Á hraðbát fyrir utan Osló.
Með Magnús Þormar og Ómari á æfingu sumarið 2006.
Gamlir taktar á æfingu sumarið 2006.
Í Danmörku á heimavelli Midtjylland sumarið 2007.
Með Ómari á æfingu sumarið 2007.
Alltaf jafn einbeittur...
Rajko í Tyrklandi með Keflavík 2008.
Kominn í sjóinn í Tyrklandi.
Stjáni, Rajko og Falur í sjónum í Tyrklandi 2008.
Rajko og Ómar í Tyrklandi 2008.
Rajko með strákana sína. Júní 2008.
Rajko og Þorsteinn formaður eftir að Rajko framlengdi samning sinn við Keflavík sumarið 2008.
Sigri fagnað gegn HK á útivelli í sumar.
Vel fylgst með í leik gegn Þrótti heima í sumar.
Það er gaman að lifa... Á lokamínútunni gegn FH í sumar í deildinni.
(Mynd frá Víkurfréttum)