Rauð spjöld, víti forgörðum og jafntefli...
Keflavík og Grindavík gerðu 1-1 jafntefli í sannkölluðum grannaslag á Keflavíkurvelli í kvöld. Ekki voru aðstæður beint hentugar til knattspyrnuiðkunar, rigning og kuldi gerðu leikmönnum jafnt sem áhorfendum lífið leitt. Grindvíkingar náðu forystunni á 16. mínútu þegar Sinisa Kekic skoraði gott mark. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Hörður hins vegar metin eftir snarpa sókn. Grindvíkingar léku fast og uppskáru nokkur spjöld og lauk atganginum með því að Eyþór Atli Einarsson fékk sitt annað gula spjald rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins.Þrátt fyrir að leika einum fleiri tókst okkar mönnum ekki að ógna marki gestanna og það voru Grindvíkingar sem voru oft á tíðum hættulegri. Stuttu fyrir leikslok misstu gestirnir annan leikmann af velli þegar Óðinn Árnason fékk sitt annað gula spjald. Skömmu síðar fengu okkar menn svo upplagt tækifæri til að tryggja sér sigurinn þegar dæmd var vítaspyrna á Grindvíkinga. Markvörður þeirra varði hins vegar spyrnu Guðmundar glæsilega og jafntefli varð því niðurstaðan.
Eftir leikinn er Keflavík enn í 3. sæti deildarinnar, nú með 15 stig eftir 9 leiki. Grindvíkingar færast hægt frá botnliðunum og eru nú 7. sæti með 9 stig.
Keflavíkurvöllur, 30. júní 2005
Keflavík 1 (Hörður Sveinsson 20.)
Grindavík 1 (Sinisa Kekic 16.)
Keflavík (4-3-3): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Michael Johansson, Baldur Sigurðsson, Branko Milicevic (Atli Rúnar Hólmbergsson 85.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Gestur Gylfason (Bjarni Sæmundsson 88.) - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson, Stefán Örn Arnarson (Gunnar Hilmar Kristinsson 77.)
Varamenn: Guðmundur Þórðarson, Ásgrímur Albertsson
Dómari: Kristinn Jakobsson
Aðstoðardómarar: Gunnar Sverrir Gunnarsson og Oddbergur Eiríksson
Varadómari: Gylfi Þór Orrason
Eftirlitsdómari: Hannes Þ Sigurðsson
Áhorfendur: 720
Hörður setur boltann í netið og jafnar leikinn.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)