Fréttir

Knattspyrna | 6. október 2004

Rauðu sokkarnir

Eins og áhorfendur á bikarúrslitaleiknum tóku eftir lék Keflavíkurliðið í rauðum sokkum en aðalbúningur liðsins er svarblár.  Upphaf þess má rekja til þess að fyrir nokkrum árum lék liðið í rauðum sokkum þrátt fyrir að leika í bláu búningunum og gekk liðinu vel í leiknum og sigraði.  Eins og sannir hjátrúarfullir Íslendingar töldu forsvarsmenn liðsins að sokkarnir hefðu átt sinn þátt í því.  Liðið hefur síðan spilað nokkra leiki í rauðum sokkum við bláa búninga og alltaf unnið.  Þó er aðeins gripið til þessa ráðs þegar mikið liggur við og því þótti við hæfi að nota rauðu sokkana í undanúrslitaleiknum gegn HK og síðan í sjálfum úrslitaleiknum gegn KA.  Það gekk eftir og liðið vann báða leikina.

Það er þó ekkert óeðlilegt að rauði liturinn sé notaður en hann er "þriðji liturinn" hjá Keflavík á eftir þeim bláa og hvíta.  Þetta má glöggt sjá í merki félagsins.  Í gegnum árin hefur rauða litnum oft verið komið inn í búninga knattspyrnuliðsins og varabúningur liðsins nú er alrauður.


Gummi, Scott, Stebbi og Guðjón taka sig vel út í rauðu sokkunum.
(Mynd: Jón Örvar Arason)