Fréttir

Knattspyrna | 12. júlí 2003

Rétt skal vera rétt!

Ég get ekki orða bundist og verð að fá að svara fyrir þær ásakanir sem Elís Kristjánsson setur á mig hér á heimasíðu Keflavíkur.  Ég dæmdi leik leik Keflavíkur og Grindavíkur í 3. flokki kvenna og í umfjöllun sinni um leikinn þá sakar Elís mig um að vera ekki nógu mikill heimadómari, eða þannig túlka ég orð hans.  Elís nefnir nokkur dæmi um dómgæslu mína í leiknum og þrátt fyrir að ég telji það ekki eðlilegt að dómarar svari fyrir sig á netsíðum íþróttafélaganna um einstaka dóma. þá tel ég mig tilneyddan til þess núna.

Elís lýsir marki sem Keflavík átti að hafa skorað í fyrri hálfleik og ég hafi dæmt af.  Atvikið kom mér þannig fyrir sjónir að eftir barning í vítateiginum á ein Keflavíkurstúlka hörkuskot að marki, markmaður sem stendur u.þ.b. metra frá marklínunni nær að slá boltann í slá og þaðan fer boltinn aftur í fang markmannsins.  Ég var mjög vel staðsettur í þessu atviki í um 5 metra fjarlægð og sá greinilega hvað gerðist, auk þess var aðstoðardómarinn minn vel staðsettur og getur hann tekið undir orð mín um að boltinn fór aldrei yfir marklínuna.  Ég vissi ekki að þetta atvik hefði verið umdeilt fyrr en í hálfleik að Elís sem var í 50 metra fjarlægð frá atvikinu skammaði mig fyrir að hafa dæmt þetta mark af, hann hefði séð það greinilega að boltinn að fór inn fyrir línuna!

Elís talar um tveggja fóta tæklingu sem ég horfði framhjá.  Ástæðan fyrir því að ég dæmdi ekki á þetta brot var sú að strax eftir brotið var boltanum sparkað fram og komust Keflavíkurstúlkurnar í hraða sókn, tvær á móti tveimur og lét ég hagnaðarregluna gilda.  Í þessari sókn kom sennilega besta færi Keflavíkur í síðari hálfleik.

Ég skil ekki hvað Elís er að fara þegar hann er að tala um að ég hafi tekið strangt á röngum innköstum.  Að taka innköst er einfalt en það er líka auðvelt að taka þau vitlaust og hef ég ekki lagt mikið upp úr að dæma röng innköst í þessum aldursflokki.  En í þessum leik keyrði um þverbak og í fyrri hálfleik var nánast hvert einasta innkast sem var tekið ólöglegt.  Í hálfleik ræddi ég því við þjálfara beggja liðanna og sagði þeim að ég myndi dæma á röng innköst í seinni hálfleik.  Í síðari hálfleik sýndu stelpurnar að þær kunna að taka innköst, en þó dæmdi ég eitt ólöglegt innkast og það var Grindavíkurstúlka sem framkvæmdi það.  Ef Elís vill að leyft verði að taka vitlaus innköst, þá ætti hann að leggja tillögu fram um það á ársþingi KSÍ og fá lögunum um framkvæmd innkasta breytt.

Hvað er Elís að meina þegar hann segir að Grindavíkurstelpurnar séu mun stærri og líkamlega sterkari en Keflavíkurstelpurnar og bætir síðan við að Grindavík fái átta aukaspyrnur í leiknum á móti 2 hjá Keflavík!!  Þarf að vera samhengi á milli þess hvor sé stærri og hvor brýtur meira af sér? Þar að auki þá hélt ég ekki bókhald yfir allar aukaspyrnur sem ég dæmdi, en ég man þó í svipinn eftir a.m.k. 5 aukaspyrnum sem Keflavík fékk í leiknum.

Það er fátt leiðinlegra í knattspyrnu en að spila á móti liði sem teflir auk þess fram heimadómara. Því miður þá er það mjög algengt í yngri flokkunum hér á landi að heimalið treysti á dómarana til að tryggja þeim 3 stig og hefur orðið töluverð fjölmiðlaumræða í sumar út af slíkum atvikum og á spjallþráðum á netinu hefur mátt lesa um hvernig dómarar hafa eyðilagt sumarið fyrir krökkum með lélegri dómgæslu.  Ég held að allir dómarar sem dæma á vegum KDS reyni eftir fremsta megna að vera sanngjarnir og dæma heiðarlega.  Passa sig á að dæma eftir knattspyrnulögunum og láta hvorki útiliðið né heimalið gjalda þess á hvorum vellinum þeir eru að spila.

Með knattspyrnudómarakveðju,
Guðmundur Guðbergsson