Reykjaneshöllin er 15 ára
Reykjaneshöllin er 15 ára í dag en hún var vígð þann 19. febrúar árið 2000. Ekki þarf að fjölyrða um þá byltingu sem varð með tilkomu hússins. Þegar talað er um þá framþróun sem orðið hefur í íslenskri knattspyrnu undanfarin ár eru knattspyrnuhúsin eitt af því sem þar er helst nefnt.
Reykjaneshöllin var fyrsta fjölnota íþróttahúsið sem reis hér á landi og það voru því töluverð tíðindi þegar húsið var vígt fyrir 15 árum. Í formlegum opnunarleik mættust Keflavík og úrvalslið Atla Eðvaldssonar, þáverandi landsliðsþjálfara. Í hálfleik léku 6. flokks lið Keflavíkur og Njarðvíkur og eftir leikinn hófst Íslandsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum. Það var Stefán Friðfinnsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, sem afhenti Ellerti Eiríkssyni húsið formlega.
Þess má geta að á morgun föstudag fer fram landsleikur í Reykjaneshöllinni en þá leika U-19 ára landslið Íslands og Færeyja í kvennaflokki. Leikurinn hefst kl. 16:00.
Hér að neðan má sjá frétt Morgunblaðsins um vígsluna. Smellið á fréttina til að sjá stærri útgáfu.