Fréttir

Knattspyrna | 23. september 2004

Rúnar Júl. gefur bækur

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og fyrrum knattspyrnumaður með Keflavík kom færandi hendi í gær miðvikudaginn 23. september á skrifstofu Knattspyrnudeildar Keflavíkur og gaf deildinni bókaflokkinn Íslensk knattspyrna eftir Víði Sigurðsson blaðamann.  Fyrsta bókin kom út árið 1981 og hafa því alls komið út 23 bækur.  Knattspyrnudeildinni er mikill fengur af þessari gjöf og færir deildin Rúnari bestu þakkir fyrir gjöfina og þann hlýja hug sem býr að baki.

Rúnar Júlíusson var einn liðsmanna Keflavíkur árið 1964 er fyrsti Íslandsmeistaratitillinn leit dagsins ljós í Keflavík.  Í síðasta leik það sumar er Keflavík lék á móti KR í Njarðvík skoraði Rúnar markið sem dugði til þess að Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.  Á þennan leik mættu 5000 áhorfendur og er það enn metaðsókn hjá Keflavík.  Í ár hefur þess verið minnst að 40 ár eru liðin frá þessum atburði, m.a. voru leikmenn ´64 liðsins heiðursgestir á leik Keflavíkur og KR í Landsbankadeildinni hér fyrr í sumar og á Ljósanótt var afhjúpaður minningarplatti í gangstéttinni við Hafnargötu. Áður hafði platti til heiðurs Hljómum verið komið fyrir í götunni.  Okkar maður hefur því verið heiðraður í bæði skiptin.

Rúnar Júlíusson er einn virtasti sonur Keflavíkur og það er Knattspyrnudeild Keflavíkur heiður að eiga slíkan stuðningsmann.