Rúnar Júlíusson látinn
Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og fyrrum leikmaður Keflavíkur er látinn, 63 ára að aldri. Rúnar var fæddur og uppalinn Keflvíkingur og sýndi snemma afburðahæfileika í knattspyrnu. Hann lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1962 og var lykilmaður í fyrsta Íslandsmeistaraliði félagsins árið 1964. Rúnar lagði knattspyrnuskóna hins vegar snemma á hilluna og sneri sér að tónlistinni. Hann starfaði við tónlist upp frá því, lék með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins og starfrækti hljóðver og plötuútgáfu. Rúnar studdi knattspyrnuna í Keflavík með ráðum og dáð og gaf m.a. út stuðningslag liðsins fyrir nokkrum árum. Þá var hann alla tíð áberandi í bæjarlífinu í Keflavík og tónlistarlífi landsins. Knattspyrnudeild Keflavíkur sendir fjölskyldu Rúnars samúðarkveðjur.