Fréttir

Knattspyrna | 20. maí 2004

Samið við nýja samstarfsaðila

Í hálfleik í leik Keflavíkur og KR í kvöld mun formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur Rúnar Arnarson skrifa undir samninga við tvo nýja samstarfsaðila Keflavíkur.

Jón Svan Sigurðsson yfirmaður Brimborgar í Reykjanesbæ hefur gert samning við Keflavík fyrir hönd Brimborgar.  Samningurinn sem er til þriggja ára er báðum aðilum hagstæður og var sérlega ánægjulegt að ná samningum við Jón Svan og Brimborg, en Jón hefur verið mjög áhugasamur um samstarf við okkur Keflvíkinga og á þakkir skildar fyrir sinn þátt í því að samningurinn varð að veruleika.

Þá hefur Knattspyrnudeildin samið við SBK og naut þar lipurðar Einars Steinþórssonar framkvæmdastjóra SBK.  Samningurinn er einn af stærri samningum deildarinnar og er til tveggja ára.  Samningurinn er algjört lykilatriði í þeirri viðleitni stjórnar Keflavíkur að gera umgjörð knattspyrnuliðsins eins góða og kostur er.  Liðið mun nú í fyrsta sinn í nokkur ár ferðast saman til og frá öllum útileikjum liðsins í sumar.  Í fyrstu ferðinni til Akureyrar í leikinn sem vannst á móti KA á sunnudag kom vel í ljós hvað það hefur mikla þýðingu fyrir liðið að vera saman í þessum ferðum.  Stemmningin í hópnum varð strax mjög góð og sérlega var andrúmsloftið skemmtilegt á heimleiðinni eftir 2-1 útisigur og hefur liðið búið að því í undirbúningi fyrir leikinn á móti KR.

Stærsta málið í umgjörðinni er ósamið um en það er mæting bæjarbúa á völlinn til að styðja liðið og bjóðum við alla bæjarbúa velkomna til leiks.  Góð aðsókn á völlinn, hvatningarhróp og jákvætt hugarfar gerir alla umgjörð leiksins eins og best verður á kosið og ekkert hefur betri áhrif á leikmenn og þjálfara liðsins.  Sýnum því samstöðu í verki og fjölmennum á fyrsta leikinn á móti KR í kvöld kl. 19:15.