Samningar og mannabreytingar
Eins og venjulega verða einhverjar breytingar á liðinu okkar milli ára. Við höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að undanfarið hafa nokkrir heimamenn endurnýjað og skrifað undir nýja samninga við Keflavík. Þetta eru þeir Guðmundur Steinarsson, Ómar Jóhannsson, Magnús Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson og Ásgrímur Rúnarsson. Alltaf eru einhverjir sem leita á önnur mið og það á einnig við núna.
Þar má fyrst nefna að Magnús Þórir Magnússon hefur gengið til liðs við Fylki. Samningur hans rann út eftir síðasta tímabil og var lþá jóst að Magnús ætlaði að leita fyrir sér á höfuðborgarsvæðinu. Magnús Þórir er uppalinn hjá Keflavík og lék fyrst með meistaraflokki árið 2007. Hann hefur leikið 52 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað sjö mörk, sex bikarleiki og skorað þar eitt mark auk eins leik í Evrópukeppni. Magnús Þórir lék á sínum tíma með U-19 ára landsliði Íslands og var á dögunum í æfingahópi U-21 árs landsliðsins.
Andri Steinn Birgisson hefur einnig horfið á braut og gengið til liðs við Leikni. Keflavík ákvað að endurnýja ekki samning Andra eftir tímabilið en hann var tvö ár í okkar herbúðum. Andri Steinn lék á þeim tíma 27 deildarleiki fyrir Keflavík og skoraði í þeim tvö mörk en hann lék einnig fimm bikarleiki og skoraði þar einnig tvö mörk.
Eins og áður hefur komið fram ákvað stjórn Knattspyrnudeildar að endurnýja ekki samning sinn við Willum Þór Þórsson og hefur hann tekið við liði Leiknis. Willum Þór tók við liði Keflavíkur af Kristjáni Guðmundssyni haustið 2009. Hann stýrði liðinu því í tvö tímabil þar sem Keflavík endaði í 6. og 8. sæti Pepsi-deildarinnar. Willum gerði Keflavík að Íslandsmeisturum í Futsal og stýrði liðinu í Evrópukeppni og stjórnaði fyrsta landsliði Íslands í Futsal.
Við óskum þeim þremenningum góðs gengis á nýjum vígstöðvum og þökkum þeim samstarfið og samveruna undanfarin ár.