Samstarf við United Silicon
Knattspyrnudeild Keflavíkur og United Silicon hafa gert með sér samstarfssamning sem gerir United Silicon að einum af okkar allara stærstu samstarfsaðilum. Samningurinn sem var undirritaður í dag er til tveggja ára til að byrja með og munu knattspyrnuáhugamenn sjá merki USi á öllum keppnisbúningum deildarinnar.
United Silicon hefur verið að byggja kísliverksmiðju sína í Helguvík og eru framkvæmdir vel á veg komnar. Þær hafa staðið yfir frá því í ágúst 2014 og stefnt er að því að hefja framleiðslu á kísil í maí 2016. United Silicon er að stórum hluta í eigu Íslendinga og finnst þeim mjög mikilvægt að fyrirtækið taki þátt í samfélaginu í Reykjanesbæ og einnig að styðja við það öfluga barna- og unglingastarf sem unnið er í Keflavík.
Knattspyrnudeildin er gríðarlega ánægð með að fá svona stóran og sterkan samstarfsaðila sem United Silicon er en fyrirtækið hugsar sér að eiga langtíma samstarf með knattspyrnudeildinni.
Á myndinni fyrir ofan eru Magnús Garðarsson framkvæmdastjóri USi og Rut Ragnarsdóttir skrifstofustjóri ásamt Þorsteini Magnússyni, Kjartani Steinarssyni og Einari H. Aðalbjörnssyni úr stjórn Knattspyrnudeildarinnar. Á neðri myndinni skrifa þeir Þorsteinn og Magnús undir samninginn.
Myndir: Jón Örvar Arason