Sanngjarn sigur á Íslandsmeisturunum
Keflavík vann 2-1 sigur á Íslandsmeisturum FH í hörkuleik á Keflavíkurvelli í kvöld. Það var Baldur Sigurðsson sem var hetja liðsins, hann skoraði bæði mörkin og sigurmarkið undir leiksins. Þrátt fyrir að sigurmarkið kæmi á elleftu stundu var sigurinn fyllilega sanngjarn. Okkar menn léku mun betur en gestirnir og sýndu á köflum frábæra knattspyrnu. Rúmlega 2000 áhorfendur skemmtu sér konunglega í frábæru knattspyrnuveðri og PUMA-sveitin og Mafían héldu uppi skemmtilegri stemmningu allan leikinn. Eftir leikinn er Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki.
Okkar menn byrjuðu leikinn mun betur og á fyrstu tíu mínútunum varði Daði Lárusson, markvörður FH, tvisvar vel. Fyrst varði hann skot frá Magnúsi sem komst í gott skotfæri eftir laglega sókn og síðan varði Daði vel langskot frá Hólmari. Fyrsta hættulega sókn gestanna kom ekki fyrr en eftir um 20 mínútna leik þegar André Lindbæk lék laglega á Kenneth en var kominn í þröngt færi og Ómar varði skot hans auðveldlega. Eftir þetta skiptust liðin á að sækja án þess að skapa sér veruleg færi. Okkar menn höfðu þó frumkvæðið og léku hraðan og skemmtilegan sóknarbolta. Rétt fyrir leikhlé munaði minnstu að Guðmundur slyppi í gegn en Tommy Nielsen náði að reka tána í boltann. Staðan í hálfleik var því markalaus þrátt fyrir fjörugan leik.
Öfugt við fyrri hálfleikinn voru það FH-ingar sem byrjuðu betur í þeim seinni. Þeir voru mun ákveðnari og áttu strax nokkrar góðar sóknir en urðu að gera sér að góðu að eiga nokkur skot af færi sem rötuðu ekki á markið. Þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum brast á æsilegur kafli. Fyrst átti Símun laglega sendingu inn fyrir á Magnús en varnarmenn FH náðu að trufla hann þannig að skotið rataði ekki á markið. Rétt á eftir átti Símun sjálfur hörkuskot sem Daði varði vel. FH-ingar brunuðu fram og Ómar varði glæsilega hörkuskot frá Dennis Siim. Keflavík brunaði fram hinum megin og Daði varði skot frá Guðmundi í horn. Upp úr hornspyrnunni barst boltinn að fjærstönginni þar sem Símun sendi hann eftir línunni; tveir Keflvíkingar hentu sér fram en einhvern veginn fór boltinn í Guðmund og yfir markið! Ótrúlegur leikkafli og markið lá í loftinu. Það kom svo á 67. mínútu og var Símun arkitektinn að því. Hann stal boltanum af bakverði FH og brunaði upp kantinn. Hann sendi á Guðmundur, fékk boltann aftur og sendi fasta sendingu fyrir markið þar sem Baldur kom aðvífandi og skoraði af stuttu færi. Vel að verki staðið og laglegt mark. En Adam var ekki lengi í Paradís. FH-ingar skiptu um leikmann og brunuðu síðan í sókn upp vinstri kantinn. Þar kom góð sending fyrir markið og varamaðurinn Atli Guðnason skoraði af öryggi. Svo sannarlega dramatískur viðsnúningur og reyndar var markið ekki ólíkt okkar marki!
Eftir þessa ótrúlegu atburðarás róaðist leikurinn nokkuð og virtist um tíma ætla að fjara út. En okkar strákar spýttu í lófana og voru greinilega ákveðnir í að nýta frumkvæðið sem þeir höfðu haft mestallan leikinn. Um tíu mínútum fyrir leikslok sneiddi Símun boltann fyrir markið og hann lenti ofan á slánni og aftur fyrir. Skömmu síðar átti Guðmundur hörkuskot sem Daði mátti hafa sig allan við að verja. Varamaðurinn Allan Dyring átti reyndar skot sem fór framhjá markinu en það voru Keflvíkingar sem sóttu í lokin. Rétt fyrir leikslok fengu þeir horn og eftir barning í markteignum tókst FH-ingum að bjarga á línu á ótrúlegan hátt. Þarna virtist síðasta tækifæri leiksins hafa litið dagsins ljós en okkar strákar voru á öðru máli. Þeir unnu boltann í miðsvæðinu og sóttu hratt upp hægri kantinn. Þar fékk Hólmar Örn boltann, sendi fasta sendingu fyrir og þar var Baldur aftur mættur og skoraði með föstu skoti úr miðjum teignum. Frábær endasprettur á góðum leik og sanngjarn sigur í höfn.
Keflavíkurvöllur, 20. ágúst - Landsbankadeildin
Keflavík 2 (Baldur Sigurðsson 67., 90.)
FH 1 (Atli Guðnason 68.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Branko Milicevic - Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Magnús Þorsteinsson (Þórarinn Kristjánsson 74.), Guðmundur
Varamenn: Stefán Guðberg Sigurjónsson, Stefán Örn Arnarson, Hallgrímur Jónasson, Viktor Guðnason, Einar Orri Einarsson, Bjarki Þór Frímannsson
Gult spjald: Baldur Sigurðsson (2.)
Dómari: Einar Örn Daníelsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Einar K. Guðmundsson
Eftirlitsmaður: Páll Júlíusson
Áhorfendur: 2070
Baldur búinn að sendi boltann í netið og sigurinn í höfn.
Ómæld gleði á pöllunum.
(Myndir: Jón Örvar Arason)