Fréttir

Knattspyrna | 20. maí 2004

Sanngjarn sigur á KR-ingum

Keflavík skellti sér á topp Landsbankadeildarinnar í kvöld með 3-1 sigri á KR á Keflavíkurvellii.. Sigurinn var sanngjarn; okkar strákar voru að spila vel og þrátt fyrir að KR-ingar næðu nokkurri pressu á köflum komust þeir lítið áleiðis gegn sterkri vörn.  Raunar var allt liðið að leika vel, menn léku saman og börðust allir sem einn.

Fyrir leikinn voru leikmenn fyrsta Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur árið 1964 heiðraðir og heilsuðu þeir upp á leikmenn liðanna.  Áður en flautað var til leiks var síðan einnar mínútu þögn til að minnast Þóris Jónssonar, FH-ings og eins af forystumönnum íslenskrar knattspyrnu.


Dæmigerð mynd fyrir leikinn; Arnar Gunnlaugsson með
boltann en kemst lítið áleiðis umkringdur Keflvíkingum.
(Mynd: Hilmar Bragi /
Víkurfréttir)

Það var ekki gott fótboltaveður í Keflavík; kalt og þó nokkur vindur sem við lékum undan í fyrri hálfleik.  KR-ingar byrjuðu leikinn hins vegar ótrúlega vel.  Eftir rúmlega tveggja mínútna leik kom fyrirgjöf frá hægri sem vörninni mistókst að hreinsa frá; Arnar Gunnlaugsson náði boltanum í miðjum teignum, lagði hann fyrir sig og sendi hann með föstu skoti efst í hornið án þess að Óli ætti möguleika.  Þrátt fyrir þetta áfall voru okkar menn langt frá því að vera slegnir út af laginu og áttu nokkrar góðar sóknir á upphafskaflanum.  Skoti frá Stefáni var bjargað í horn og Hörður átti hörkuskot rétt yfir.  Um miðjan hálfleikinn kom svo jöfnunarmarkið.  Eftir mikla pressu að marki KR var bjargað naumlega í horn.  Eftir hornspyrnuna björguðu gestirnir á línu en Stefán fylgdi á eftir og sendi boltann í bláhornið.  Eftir þetta skiptust liðin á um að sækja án þess að skapa sér umtalsverð færi.  Kristján þurfti þó að kýla fasta aukaspyrnu frá Stefáni frá markinu en staðan í hálfleik var 1-1.


Stefán (nr. 2) rís á fætur eftir að hafa skorað jöfnunarmarkið.
(Mynd: Hilmar Bragi /
Víkurfréttir)

Seinni hálfleikurinn hófst eins og þeim fyrri lauk, liðin sóttu á víxl án þess að skapa mörg færi.  KR-ingar áttu hættulegasta færið eftir aukaspyrnu en eftir barning við markið tókst að bægja hættunni frá á síðustu stundu.  Á 64. mínútu leiksins komst Keflavík síðan yfir.  Brotið var á Guðjóni um 25 metra frá marki KR.  Haraldur gerði sig líklegan til að skjóta en renndi boltanum á Scott sem sendi hann neðst í bláhornið með hörkuskoti án þess að Kristján kæmi vörnum við, glæsilegt mark.

Eftir markið reyndu KR-ingar að færa sig framar á völlinn en það voru Keflvíkingar sem áttu betri færi.  Scott slapp einn í gegn en renndi boltanum rétt framhjá markinu.  Hólmar Örn braust síðan inn í teiginn, lék á nokkra varnarmenn og átti hörkuskot sem Kristján varði vel í horn.  Gestirnir sóttu sífellt framar en um það bil sem venjulegum leiktíma lauk fengu þeir rothöggið.  Magnús fékk langa sendingu fram, sendi frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Hörð sem skoraði af öryggi.  Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og sigurinn í höfn.


Hörður sloppinn í gegn og innsiglar sigurinn með þriðja markinu.
(Mynd: Hilmar Bragi /
Víkurfréttir)

Okkar menn áttu sigurinn skilinn í þessum leik.  Liðið lék vel og gaf Íslandsmeisturunum fá færi á sér.  Stuðningsmenn völdu Stefán Gíslason mann leiksins og var það verðskuldað; Stefán skoraði jöfnunarmarkið og var geysiöflugur á miðjunni.  Þar stjórnaði hann spilinu og stöðvaði að auki margar sóknir andstæðinganna.  Annars á liðið í heild hrós skilið fyrir leik sinn; menn reyndu að spila boltanum, vörðust vel og voru sterkir fyrir í vörninni þegar KR-ingar pressuðu framar.

Keflavíkurvöllur, 20. maí 2004
Keflavík 3 (Stefán Gíslason 24., Scott Ramsay 64., Hörður Sveinsson 90.)
KR 1 (Arnar Gunnlaugsson 3.)

Keflavík (4-5-1):
Ólafur Gottskálksson - Guðjón Antoníusson, Haraldur Guðmundsson, Sreten Djurovic, Ólafur Ívar Jónsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Þórarinn Kristjánsson 90.), Stefán Gíslason, Zoran Ljubicic, Jónas Guðni Sævarsson, Scott Ramsay (Magnús Þorsteinsson  87.) - Hörður Sveinsson
Varamenn: Magnús Þormar, Hjörtur Fjeldsted, Guðmundur Steinarsson
Gult spjald: Stefán Gíslason (62.)

Dómari: Erlendur Eiríksson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Einar Sigurðsson
Eftirlitsdómari: Guðmundur Stefán Maríasson
Áhorfendur: 1425

 



Leikmenn fyrsta Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur árið 1964 stilla sér upp fyrir leikinn.
(Mynd: Hilmar Bragi /
Víkurfréttir)