Fréttir

Knattspyrna | 26. maí 2005

Sanngjarn sigur á KR-ingum

Keflavík vann KR 2-1 í 3. umferð Landsbankadeildarinnar á Keflavíkurvelli í kvöld.  Okkar menn léku vel í leiknum og sigurinn var sanngjarn.  KR-ingar áttu reyndar góðan sprett undir lok fyrri hálfleiks, skoruðu mark sitt og hefðu getað náð yfirhöndinni.  Leikurinn fór fram við kjöraðstæður og fjölmargir áhorfendur skemmtu sér vel með Puma-sveitina í hörkuformi.  Fyrir leikinn var mínútu til minningar um Gísla Torfason, fyrrum leikmann Keflavíkur, og leikmenn liðsins léku með sorgarbönd.

Keflavíkurliðið byrjaði leikinn mun betur, lék skínandi fótbolta frá byrjun leiks og baráttan var til fyrirmyndar.  Fyrsta sókn KR-inga kom eftir um 10 mínútna leik, úr henni varð ekkert og andartökum síðar komst Keflavík yfir.  Baldur brunaði þá fram völlinn, sendi á Hörð og fékk góða sendingu inn fyrir vörnina.  Baldur sendi fasta sendingu fyrir markið þar sem Guðmundur henti sér fram og skallaði á markið; boltinn fór í Kristján markmann, aftur í Guðmund og endaði í netinu!  Áfram hélt sóknin og skömmu síðar virtist boltinn fara í hendi KR-ings í teignum en Garðar Örn taldi svo ekki vera og lét leikinn halda áfram.  Keflavík hélt áfram að hafa yfirhöndina en eftir um hálftíma leik munaði litlu að gestirnir jöfnuðu þegar aukaspyrna Grétar Hjartarsonar small í slánni.  Undir lok hálfleiksins gáfu okkar menn eftir og KR-ingar gengu á lagið.  Á 41. mínútu jafnaði Bjarnólfur Lárusson leikinn eftir hornspyrnu.  Ómar fór út úr markinu en náði ekki til boltans, Arnar Gunnlaugsson skallaði að marki en í stöngina og Bjarnólfur fylgdi á eftir og kom boltanum yfir línuna.  Skömmu síðar komst Grétar einn í gegn en missti boltann frá sér.  Og rétt fyrir hlé komst Grétar aftur inn fyrir vörnina og braust framhjá Ómari en féll við.  Garðar taldi að Ómar hefði brotið af sér og dæmdi vítaspyrnu.  Arnar tók spyrnuna en Ómar gerði sér lítið fyrir og varði glæsilega góða spyrnu Arnars.  Staðan var því 1-1 í hálfleik og eftir góða byrjun voru Keflvíkingar heppnir að fara ekki inn í klefa marki undir.


Gengið til leiks.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)
Við eigum fjölda góðra mynda frá KR-leiknum sem koma inn á síðuna um helgina. 
Fylgist með.

Í upphafi seinni hálfleiks var jafnræði með liðunum en síðan náðu okkar menn tökum á leiknum.  Eftir nokkrar ágætar sóknir komust þeir yfir á 66. mínútu þegar önnur vítaspyrna leiksins leit dagsins ljós.  Eftir baráttu í teignum ætlaði Baldur að skalla að marki en varnarmaður sparkaði í höfuð hans.  Garðar dæmdi víti og Guðmundur skoraði af öryggi sitt annað mark í leiknum.  Eftir þetta var leikurinn í jafnvægi en Keflvíkingar sóttu heldur meira og áttu nokkrar beittar sóknir að marki gestanna.  Sú besta kom stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Hörður lék skemmtilega í gegnum vörnina og gaf á Hólmar Örn en Kristján varði hörkuskot hans naumlega.  KR-ingar náðu lítið að ógna og reyndu mest háar sendingar inn í teig sem vörnin varðist fimlega.  Rétt fyrir leikslok var Rógvi Jacobsen þó skyndilega einn í vítateignum en skallaði yfir markið.  Strax á eftir skaut Hörður framhjá úr góðu færi en mörkin urðu ekki fleiri og sanngjarn sigur í höfn.

Keflavíkurvöllur, 26. maí 2005
Keflavík 2 (Guðmundur Steinarsson 11., víti 66.)
KR 1 (Bjarnólfur Lárusson 41.)

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Brian O´Callaghan, Michael Johansson, Branko Milicevic - Jónas Guðni Sævarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Gestur Gylfason - Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson  
Varamenn: Magnús Þormar, Ásgrímur Albertsson, Bjarni Sæmundsson, Atli Rúnar Hólmbergsson, Gunnar Hilmar Kristinsson 
Gul spjöld: Gestur Gylfason (29.), Guðjón Antoníusson (39.), Branko Milicevic (73.)

Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Einar Sigurðsson
Eftirlitsdómari: Páll Júlíusson
Áhorfendur: Um 1.200