Fréttir

Knattspyrna | 20. júní 2003

Sanngjarn sigur gegn Leiftri/Dalvík

Keflavík vann nauman en sanngjarnan sigur á Leiftri/Dalvík á Keflavíkurvelli í kvöld.  Lokatölurnar urðu 1-0 en okkar mönnum gekk illa að skapa færi í fyrri hálfleiknum; sóknin var beittari í þeim seinni og munaði mikið um framlag Scott Ramsay sem kom inn á hálfleik og lagði m.a. upp sigurmarkið sem kom þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Leikurinn fór rólega af stað, liðin skiptust á um að sækja án þess að skapa sér teljandi færi.  Fyrsta umtalsverða marktilraunin kom eftir um tuttugu mínútna leik þegar Ómar varði skot norðanmann vel í horn.  Þegar leið á hálfleikinn hertist sókn okkar manna og undir lok hans var töluverð pressa að marki gestanna sem björguðu nokkrum á síðustu stundu og tvisvar nánast á marklínu.  En ekki vildi boltinn inn og staðan í hálfleik því markalaus.

Keflavík - Leiftur/Dalvík
MYND:Halldór Rósmundur

Keflavíkurliðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og sótti stíft að marki andstæðinganna.  Scott Ramsay kom inn á í hálfleik og bætti töluverðu biti í sókn liðsins.  Eftir nokkrar góðar sóknar sem enduðu með skotum sem fóru ýmist rétt yfir eða rétt framhjá kom sigurmark leiksins þegar um fímmtán mínútur voru liðnar af hálfleiknum.  Scott braust þá einu sinni sem oftar upp vinstri kantinn og gaf frábæra sendingu fyrir markið; Þórarinn rétt missti af boltanum en Hólmar Örn fylgdi vel eftir við fjærstöngina og sendi boltann laglega í markið af stuttu færi.  Eftir markið héldu okkar menn áfram að sækja; Þórarinn og Kristján sendu boltann framhjá úr góðum færum, Þórarinn skaut síðan í stöngina eftir laglegt gegnumbrot og nokkur skot fóru nálægt markinu en inn fór tuðran ekki.  Í blálokin skallaði Hörður síðan í slána.  Leikmenn Leifturs/Dalvíkur reyndu nokkuð að sækja undir lokin en gekk lítið að skapa sér færi og naumur en mjög sannsgjarn sigur var því í höfn.

Með sigrinum komst Keflavík í efsta sæti 1. deildar en liðið er með 12 stig eftir 5 leiki.  Víkingar hafa einnig 12 stig og næst koma Þórsarar en þessi lið hafa bæði leikið 5 leiki.  Úrslit leikja og stöðuna í 1. deildinni má finna á heimasíðu KSÍ.


Keflavíkurvöllur, 20. júní 2003

Keflavík 1
(Hólmar Örn Rúnarsson 58.)
Leiftur/Dalvík 0 
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Ólafur Ívar Jónsson 89.), Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsson, Adolf Sveinsson (Scott Ramsay 46.) - Þórarinn Kristjánsson, Magnús Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 77.)
Varamenn: Magnús Þormar, Hjörtur Fjeldsted
Gult spjald: Hólmar Örn Rúnarsson (22.)

Dómari:
Örn Bjarnason
Aðstoðardómarar: Leiknir Ágústsson og Valgeir Valgeirsson
Eftirlitsmaður: Guðmundur Sigurðsson

Keflavík - Leiftur/Dalvík
MYND:Halldór Rósmundur