Fréttir

Knattspyrna | 1. október 2006

Sanngjarn sigur í úrslitaleiknum

Keflavík vann góðan og sanngjarnan sigur á KR í úrslitaleik Bikarkeppni KSÍ, VISA-bikarsins, á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 2-0 og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik.  Það fyrra skoraði Guðjón Árni Antoníusson og Baldur Sigurðsson gerði seinna markið en bæði mörkin komu eftir hornspyrnur frá vinstri.

Það var góð stemmning í Laugardalnum þegar flautað var til leiks í þessum úrslitaleik Keflavíkur og KR.  Veðrið lék við leikmenn og vallargesti og aðstæður allar eins og best verður á kosið.  Stuðningsmenn beggja liða fjölmenntu og létu vel í sér heyra frá fyrstu mínútu og voru reyndar byrjaðir að styðja liðin vel fyrir leik.  Leikmenn Keflavíkur mættu svo sannarlega vel stemmdir til leiks og höfðu m.a. allir breytt um hárgreiðslu með ansi misjöfnum árangri.  Sá eini sem mætti ekki með nýja hárgreiðslu var sænska varnartröllið en kannski honum hafi bara þótt nóg að mæta með sína gömlu og góðu greiðslu til að falla inn í hópinn.

Það var ljóst í upphafi leiks að KR-ingar ætluðu að beita sömu leikaðferð og hefur gefist þeim best í sumar.  Leikmenn liðsins lágu aftarlega á vellinum og ætluðu greinilega að freista þess að skora eitt mark og halda því.  Okkar menn gengu á lagið, sóttu fram völlinn og settu varnarmenn KR strax undir þó nokkra pressu.  Eftir nokkrar ágætar sóknir munaði litlu að Magnús slyppi í gegn en Gunnlaugur fyrirliði KR steig fyrir hann.  Magnús féll við og vildi fá vítaspyrnu en Jóhannes dómari Valgeirsson var ekki á sama máli.  Áfram hélt sókn Keflavíkur og eftir tuttugu mínútna leik kom fyrsta markið.  Guðmundur tók þá hornspyrnu frá vinstri og sendi góða sendingu fyrir þar sem Þórarinn átti fastan skalla að marki KR.  Þar birtist Guðjón bakvörður óvænt í marteignum og skallaði boltann snyrtilega framhjá Kristjáni í markinu.  Laglega að markinu staðið en varnarmenn KR voru út á þekju og Guðjón var óvaldaður fyrir framan markið.  Það höfðu kannski fáir reiknað með að markið kæmi úr þessari átt og það aðeins 20 dögum eftir síðasta mark Guðjóns!  Tíu mínútum síðar kom annað mark og enn tók Guðmundur horn frá vinstri.  Í þetta sinn var skallað frá en boltinn barst aftur til fyrirliðans sem sendi hann að markteigshorninu.  Þar tók Þórarinn við boltanum og kom honum fyrir markið þar sem Baldur var einn á markteignum og þrumaði boltanum upp í þaknetið.  Vel gert og enn var Kristján varnarlaus í markinu.  Eftir markið reyndu KR-ingar að sækja fram og áttu nokkrar rispur en sköpuðu sér engin veruleg færi.  Sóknarmenn þeirra voru hálfeinmana og máttu sín lítils gegn klettunum í Keflavíkurvörninni.  Okkar menn höfði leikinn í hendi sér og höfðu verðskuldaða 2-0 forystu þegar flautað var til hálfleiks.

Eins og vænta mátti blésu KR-ingar til sóknar í upphafi seinni hálfleiksins en komust lítið áleiðis.  Það var helst með innkomu varamannsins Skúla Jóns Friðgeirssonar sem líf færðist í sóknarleik KR-inga.  Skúli átti ágætt skot sem fór framhjá markinu og Guðmundur Pétursson skaut síðan rétt framhjá eftir góða fyrirgjöf  Skúla.  KR komst síðan næst því að skora þegar Sigmundur Kristjánsson tók boltann laglega niður fyrir utan teig og átti skot sem fór í þverslána og yfir.  En það voru Keflvíkingar sem áttu hættulegri sóknir og voru klaufar að skora ekki fleiri mörk.  Leikurinn þróaðist ekki ósvipað og úrslitaleikurinn gegn KA árið 2004.  Tveggja marka forysta eftir yfirburði í fyrri hálfleik.  Andstæðingarnir sóttu meira í þeim seinni án þess að skapa sér hættuleg færi en á móti komu stórhættulegar skyndisóknir.  Munurinn var hins vegar að fyrir tveimur árum kom þriðja markið eftir skyndisókn undir lok leiksins.  Að þessu sinni tókst okkar mönnum ekki að bæta við marki þrátt fyrir fjölmargar góðar sóknir.  Þórarinn fékk besta færið þegar hann komst einn í gegnum vörn KR en Kristján bjargaði glæsilega með úthlaupi.  Kristján þurfti oftar að sýna snarræði til að bjarga marki og nokkrum sinnum brutu KR-ingar af sér til að stöðva sóknirnar.  Á köflum voru okkar menn of seinir að koma boltanum á frían mann og þegar það tókst voru þeir einkar lagnir við að fá boltann á vinstri fótinn.  Nema Guðmundur sem fékk boltann alltaf fyrir hægri fótinn enda örvfættur!  Útkoman voru nokkur skemmtilega léleg skot.  En menn létu þetta ekki á sig fá og kláruðu leikinn af öryggi.  Það var vel fagnað inn á vellinum og í stúkunni þegar góður dómari leiksins flautaði til leiksloka.

Við getum verið stolt af frammistöðu okkar manna í leiknum.  Liðið sýndi frábæra knattspyrnu og lék af mikilli skynsemi allan leikinn.  Hver einasti leikmaður vann af fullum krafti allan leikinn, samheldni og barátta einkenndi allan leik liðsins og leikgleðin skein af mönnum.  Ekki má gleyma þætti stuðningsmanna sem voru svo sannarlega 12. maðurinn að þessu sinni.  Stemmningin í stúkunni var einstök og öll framkoma áhorfenda til fyrirmyndar.  Með liðið í þessum ham og með þennan stuðning á pöllunum var einhvern veginn alltaf ljóst að bikarinn kæmi til Keflavíkur í fjórða sinn.

Laugardalsvöllur, 30. september - VISA-bikarinn, úrslitaleikur
KR 0
Keflavík 2 (Guðjón Antoníusson 21., Baldur Sigurðsson 30.)

Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Hallgrímur Jónasson - Magnús Þorsteinsson (Branko Milicevic 66.), Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen (Ólafur Jón Jónsson 90.) - Þórarinn Kristjánsson (Stefán Örn Arnarson 90.), Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Ragnar Magnússon, Einar Orri Einarsson, Garðar Eðvaldsson
Gult spjald: Baldur Sigurðsson (90.)

Dómari: Jóhannes Valgeirsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Sigurður Óli Þórleifsson
Varadómari: Erlendur Eiríksson
Eftirlitsmaður: Gunnar Randver Ingvarsson
Áhorfendur: 4699




Guðjón Árni búinn að skalla boltann í netið og staðan orðin 1-0.
(Mynd: Þorgils Jónsson / Víkurfréttir)