Sanngjarn sigur í Vesturbænum
Rauðklæddir Keflvíkingar gerðu góða ferð í Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og unnu þar sanngjarnan 3-1 sigur á liði KR í 12. umferð Landsbankadeildarinnar. Eftir þennan sigur eru okkar menn í 3. sæti deildarinnar með 19 stig.
Heimamenn voru heldur sterkari framan af leiknum og komust yfir á 22. mínútu þegar Ágúst Gylfason skoraði gott mark með skoti utan vítateigs. Eftir það höfðu okkar menn yfirburði og áttu KR-ingar fá svör. Jöfnunarmarkið kom reyndar ekki fyrr en í upphafi seinni hálfleiks þegar Kenneth skoraði í sínum fyrsta leik eftir góða sókn. Pilturinn átti stórleik og var óheppinn að skora ekki annað mark þegar þrumuskot hans af löngu færi small í þverslánni. Áfram hélt Keflavíkurliðið að þjarma að KR-ingunum og á 58. mínútu skoraði Baldur sitt fyrsta mark fyrir Keflavík með skoti frá vítateigslínu sem breytti um stefnu af varnarmanni. Nokkrum mínútum fyrir leikslok kom svo rothöggið þegar Hörður fékk frábæra sendingu frá Jónasi inn fyrir vörnina, lék á Kristján markvörð og skoraði sitt 6. mark í þremur leikjum. Sanngjarn sigur í höfn og gott veganesti fyrir Evrópuleikinn á fimmtudaginn.
Það er athyglisvert að sigurinn í gær var 4. útisigur Keflavíkurliðsins í Landsbankadeildinni í sumar en auk þess hefur liðið gert eitt jafntefli á útivelli og aðeins tapað einum leik, gegn toppliði FH. Á heimavelli er niðurstaðan hins vegar þrjú jafntefli, tvö töp og einn sigur, gegn KR-ingum. Á útivelli hefur liðið fengið 13 stig en 6 á heimavelli. Markatalan í útileikjunum er 13-10 en á heimavelli er hún 8-14.
KR-völlur, 24. júlí 2005
KR 1 (Ágúst Gylfason 21.)
Keflavík 3 (Kenneth Gustavsson 52., Baldur Sigurðsson 58., Hörður Sveinsson 82.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Baldur Sigurðsson, Gestur Gylfason - Hólmar Örn Rúnarsson (Michael Johansson 90.), Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson (Bjarni Sæmundsson 83.), Branko Milicevic - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Gunnar Hilmar Kristinsson, Ólafur Jón Jónsson
Gul spjöld: Hólmar Örn Rúnarsson (12.), Guðmundur Steinarsson (73.)
Dómari: Eyjólfur M. Kristinsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Einar Örn Daníelsson
Eftirlitsdómari: Þorvarður Björnsson
Áhorfendur: 853
Kenneth jafnar metin og setur mark sitt á sinn fyrsta leik með Keflavík.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)