Sanngjarnt jafntefli á Hlíðarenda
Keflavík gerði enn eitt jafnteflið í Landsbankadeildinni þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn Val á Hlíðarenda í gærkvöldi. Þetta var 6. jafntefli okkar í deildinni í sumar og hefur ekkert lið gert eins mörg jafntefli. Staðan væri auðvitað betri ef tekist hefði að knýja fram sigur í einhverjum þessara leikja en á móti kemur að liðið hefur aðeins tapað þremur leikjum, sem er góður árangur. Þó markalaus jafntefli séu aldrei vinsæl er ánægjulegt að Keflavíkurliðið hélt hreinu í fyrsta skiptið í sumar. Það er orðið þó nokkuð síðan liðið fékk ekki á sig mark í deildarleik en það gerðist síðast í 1-0 sigri gegn KA 14. júlí í fyrra. Síðan höfðum við fengið á okkur mark í 21 deildarleik í röð.
Jafnteflið í gær var sanngjarnt. Þrátt fyrir heilmikla baráttu tókst hvorugu liðinu að ná tökum á leiknum og leikmenn beggja liða virkuðu þreyttir eftir erfiða törn að undanförnu. Úrslitin verða að teljast ásættanleg fyrir okkar menn; jafntefli á útivelli gegn næstefsta liði deildarinnar. Frammistaðan var einnig mikil framför frá fyrri leik liðanna sem Valsarar unnu 5-1 á Keflavíkurvelli en það var án efa slakasti leikur okkar í sumar.
Eftir jafnteflið gegn Val og tap Skagamanna um helgina er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 21 stig, einu stigi á undan liði ÍA. Það stefnir því hörkubaráttu um þetta eftirsótta 3. sæti og því verður án efa hart tekist á næsta sunnudag þegar Skagamenn koma í heimsókn í Keflavík. Jafntefli gegn Val er ágætur undirbúningur fyrir þann leik. Loks tókst að halda markinu hreinu og það er gott veganesti fyrir þá baráttu sem framundan er; lokasprettinn í Landsbankadeildinni og Evrópuleikinn gegn Mainz.
Hlíðarendi, 15. ágúst 2005
Valur 0
Keflavík 0
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Michael Johansson, Guðmundur Mete, Baldur Sigurðsson, Issa Abdulkadir (Gunnar Hilmar Kristinsson 69.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson, Branko Milicevic - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson (Ólafur Jón Jónsson 88.)
Varamenn: Magnús Þormar, Bjarni Sæmundsson, Atli Rúnar Hólmbergsson
Gult spjald: Baldur Sigurðsson (66.)
Dómari: Gylfi Þór Orrason
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Leiknir Ágústsson
Eftirlitsdómari: Gísli Björgvinsson
Áhorfendur: 780
Kenneth, Mete og Ómar voru traustir gegn Valsmönnum.
(Mynd. Jón Örvar Arason)