Shellmótið í Eyjum
Shellmótið í Eyjum var haldið um helgina en við Keflvíkingar fórum með 23 stráka og eina stelpu til Eyja að keppa í 6. flokki. Lagt var af stað frá K-húsinu á miðvikudag og farið með Herjólfi um kvöldið. Sjóferðin var nú engin skemmtiferð enda mikill sjógangur en krakkarnir stóðu sig vel. Svo var farið með krakkana í Höllina í mat um kl. 23:00 og þaðan beint upp í barnaskóla til að koma sér fyrir. Farið var með þrjú lið til Eyja, A-, B- og D-lið og stóðu þau sig með stakri prýði bæði í úti- og innimótinu. Einnig var keppt í ýmsum þrautum, farið að spranga og farið í rútuferð þar sem við fengum fræðslu um Eyjarnar. Allir krakkarnir stóðu sig mjög vel og spiluðu betur og betur með hverjum leiknum. Flottir krakkar sem eiga framtíðina fyrir sér. Ferðin gekk vel og voru krakkarnir til fyrirmyndar í alla staði. Meðfylgjandi er mynd af krökkunum ásamt Unnari þjálfara
Myndasyrpa frá mótinu er á bloggsíðu 6. flokks.
Fyrir hönd foreldraráðs 6. flokks Keflavíkur,
Friðrik Bergmanns