Fréttir

Siggi Raggi og Eysteinn þjálfa Keflavík
Knattspyrna | 23. október 2019

Siggi Raggi og Eysteinn þjálfa Keflavík

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið ráðinn sem annar aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá knattspyrnudeild Keflavíkur til næstu þriggja ára. Hann mun starfa við hlið Eysteins Húna Haukssonar, en Eysteinn hefur verið að vinna frábært uppbyggingarstarf með efnilegt lið Keflavíkur. Síðasta eina og hálfa tímabil sem aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari þar á undan.

Stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur fagnar þessari ráðningu, en auk þess að vera annar aðalþjálfari meistaraflokks karla, mun honum einnig verða falið að halda utanum önnur verkefni við þjálfun á öllum stigum uppeldisstarfsins, sem félagið leggur ríka áherslu á.


Sigurður Ragnar er fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðs Íslands og kom því tvisvar í úrslitakeppni Evrópumótsins, auk þess sem hann á stóran þátt í að koma kvennaknattspyrnu á þann stall sem hún er komin á í dag. Þá hefur hann á þjálfaraferli sínum verið aðstoðarþjálfari Lilleström í tvö ár, þjálfað knattspyrnulið ÍBV í efstu deild auk þess að þjálfa félagslið og kvennalandslið Kína undanfarin ár.
Síðastliðin tvö ár hefur Sigurður haldið fjölda fyrirlestra fyrir íþróttafólk og fyriirtæki um hvað þarf til að ná árangri. Sigurður er íþróttafræðingar að mennt með meistarapróf í íþróttasálfræði og hefur tekið EUFA Pro þjálfaragráðu sem er æðsta stig þjálfaramenntunar sem hægt er að sækja.


Sigurður kemur í þjálfarateymi Keflavíkur í kjölfar brotthvarfs Mílans Stefáns Jankovic sem var aðstoðarþjálfari Keflavíkur s.l. sumar og vill stjórn deildarinnar þakka Janko fyrir gott samstarf og óskar honum velfarnaðar í Grindavík.


Siggi Raggi: „ Ég er mjög spenntur fyrir því að koma inní öflugt þjálfarateymi Keflavíkur og starfa með Eysteini við að byggja upp Keflavíkurliðið og byggja á þeim grunni sem hefur verið lagður hér síðustu ár. Það eru spennandi tímar framundan í Keflavík og ég er sannfærður um að áður en langt um líður verður liðið tilbúið til að berjast meðal þeirra bestu. Hér er mikill efniviður og gott umhverfi til að ná árangri.“


Eysteinn Húni: „ Það er ánægjulegt að Siggi sé kominn til starfa hjá Keflavík og miðað við mín fyrri kynni af honum og hans störfum og vinnubrögðum þá smell-passar hann inn í okkar prógram. Ég er alveg klár á því að þessi ráðning á eftir að hafa mikil og góð áhrif á félagið í heild.“


Sigurður Garðarsson formaður Keflavíkur: „Við erum mjög ánægð í Keflavík að fá Sigga Ragga til starfa með okkur. Hann hefur unnið mörg afrek á sínum ferli og náð árangri sem tekið er eftir. Það er þannig fólk við við viljum hafa í Keflavíkurliðinu. Siggi Raggi kemur með nýjar áherslur í upbbyggingarstarfið og ég tel að við séum að búa til gríðarlega öflugt þjálfarateymi sem getur náð því besta úr leikmannahópnum okkar“.