Fréttir

Knattspyrna | 9. júlí 2007

Sigur á Fylki í Landsbankadeildinni

Keflavík mætti Fylki í Landsbankadeild kvenna s.l. föstudag á Keflavíkurvelli við frábærar knattspyrnuaðstæður, völlur og veður frábært.  Liðin mættust í VISA-bikarnum í júní á Fylkisvelli og bar Keflavík sigur úr býtum eftir mikinn baráttuleik þar sem úrslit réðust eftir vítaspyrnukeppni.  Leikurinn á föstudag lofaði því góðu.  Baráttan var allsráðandi frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu og fór svo að Keflavík sigraði 2-1.

Lið Fylkis er vel mannað og spilar fínan bolta.  Leikurinn byrjaði með mikilli baráttu um miðsvæðið en hægt og rólega náðu Keflvíkingar tökum á leiknum.  Porca hefur verið duglegur að spila 4-3-3 og gerði breytingar á Keflavíkurliðinu eftir tapið gegn Fjölni.  Hann færði Björg Ástu á hægri kanntinn, Unu Harkinn í djúpan miðjumann og Beth Ragdale í stöðu Bjargar í miðri vörn liðsins.  Breytingin hafði góð áhrif á liðið og kom meiri ógnun á hægri væng liðsins fyrir vikið.  Það kom þó ekki í veg fyrir að Fylkir næði forystunni gegn gangi leiksins þegar Anna Björnsdóttir skoraði á 27. mínútu, 0-1.  Á 31. mínútu náðu Keflvíkingar góðri sókn upp vinstra megin og góð fyrirgjöf frá Donnu Chayne rataði beint á kollinn á Björgu Ástu Þórðardóttur sem skoraði með góðum skalla frá vítateigspunkti, 1-1.  Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik þó oft hafi hurð skollið nærri hælum við mark Fylkis.

Seinni hálfleikur var líkur þeim fyrri, Keflavík meira með boltann en Fylkir ávallt hættulegar framávið.  Á 53. mínútu var dæmd aukaspyrna á Fylki eftir brot á Vesnu Smiljkovic við vítateigshornið vinstra megin.  Danka Padovac tók spyrnuna og skoraði beint úr með glæsilegu skoti í nærhorn Fylkismarksins, 2-1.  Urðu þetta lokatölur í skemmtilegum baráttuleik þar sem bæði lið spiluðu til sigurs.  Keflavík er eftir þennan leik í 3. sæti Landsbankadeildar þegar komið er að landsleikjafríi.  Keflavík leikur næst 27. júlí gegn KR á KR-vellinum.

Keflavík: Jelena, Ester, Lilja, Beth (Anna), Donna, Björg Magnea, Una, Danka, Björg Ásta, Guðný (Bryndís), Vesna
Varamenn: Helena, Justyna, Rebekka, Eva.


Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði átti góðan dag með Keflavík.


Tveir af markaskorurum leiksins, Björg Ásta Keflavík og Anna Björnsdóttir Fylki.
(Myndir: vf.is)