Fréttir

Knattspyrna | 5. september 2005

Sigur á ÍA í lokaleiknum

Keflavíkur stúlkur sigrðu ÍA í 14. og síðustu umferð Landsbankadeildar kvenna í gær með tveimur mörkum gegn engu.  Keflavík hafði tryggt sér áframhaldandi veru í efstu deild að ári en Skagaliðið var þegar fallið í 1.deild.

Heiðursgestir á leiknum voru konur úr fyrsta meistaraflokksliði Keflavíkur og heilsuðu þær upp á leikmenn með formanni kvennaráðs, Reyni Þór Ragnarssyni.  Var það sérstaklega ánægjulegt að hafa þær með í síðasta leik sumarsins.  Eftir leiki 14. umferðar er ljóst að Keflavík er öruggt með 5. sætið í Landsbankadeild 2005.  Er þessi árangur í samræmi við þær væntingar sem gerðar voru til liðsins í vor.  Liðið sigraði í 6 leikjum, tapaði 8, skoraði 31 mark, fékk á sig 35 og endar með 18 stig.  ÍBV endaði í 3. sæti með 24 stig og KR í því 4. með 22 stig þannig að Keflavík var ekki langt frá þessum stórliðum í íslenskri kvennaknattspyrnu.  Fyrir neðan Keflavík voru Stjarnan með 15 stig, FH með 10 stig og ÍA með 1 stig.

Leikurinn einkendist af því að liðin höfðu svo sem ekki fyrir miklu að berjast nema þá stoltinu, þarna mættust þau tvo lið sem komu upp í Landsbankadeildina nú í sumar.  Skagastúlkur mættu grimmar til leiks og gekk liði Keflavíkur mjög illa að koma einhverri vinnslu í lið sitt.  Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik, þó átti Birna Aðalsteinsdóttir skot í þverslá Skagaliðsins.

Seinni hálfleikur var þó öllu frískari og náðu Keflavíkurstúlkur að komast betur inn í leikinn.  Fyrra mark Keflavíkur skoraði Helena Rós Þórólfsdóttir á 70. mínútu með góðum skalla eftir hornspyrnu.  Var þetta mjög vel gert hjá Helenu sem er á yngra ári í 3. flokki.  Seinna mark Keflavíkur skoraði Nína Ósk Kristinsdóttir með góðu skoti á 85. mínútu.  Keflavík fékk nokkur ágætisfæri til að bæta við mörkum það sem eftir lifði leiks.  Markmaður Keflavíkur Steindóra „Dódó“ Steinsdóttir greip vel inn í það sem þurfti að stoppa og var mjög örugg í öllum sínum aðgerðum.  Dódó kom til liðs við Keflavíkur seinnipart júlí þegar annar markmaður Keflvíkur hvarf á vit annarra ævintýra.  Vill kvennaráð koma á framfæri kærum þökkum fyrir hennar viðbrögð þegar við leituðum til hennar í nauð og var Dódó okkur mikill styrkur.

Lið Keflavíkur: Dódó, Sunna, Ásdís, Lilja, Ester, Birna (Ólöf  46.), Hrefna, Guðný (Eva 70.), Nína, Hjördís (Helena 61.), Vesna
Varamenn: Ingey, Karen, Eva, Helena og Ólöf

Myndir:

Helena Þórólfsdóttir skoraði fyrra mark Keflavíkur.

Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði með góðu skoti. (Mynd: Jón Örvar)