Fréttir

Knattspyrna | 16. ágúst 2005

Sigur á KR-ingum í Landsbankadeild kvenna

Keflavíkurstúlkur sigruðu KR með tveimur mörkum gegn einu í kvöld og gerði Lilja Íris Gunnarsdóttir bæði mörk liðsins. Var mikil barátta í báðum liðum á rennblautum vellinum og sýndi lið Keflavíkur mikinn karekter og  vilja sem skóp sigurinn.

Fyrri hálfleikur einkenndist, sem og allur leikurinn, af mikilli baráttu þar sem bæði lið ætluðu sér að sigra.  Keflavíkurliðið komst yfir á 18. mínútu þegar Lilja Íris Gunnarsdóttir skoraði með góðu skoti eftir mikla pressu að marki KR.  Ekki náðu KR-stúlkur að setja neina teljanlega pressu á Keflavíkurliðið.

Seinni hálfleikur hófst með mikilli pressu KR-liðsins en vel skipulagt Keflavíkurlið varðist vel og hélt út fyrstu áhlaup KR. Á 56. mínútu tók Ágústa Jóna Heiðdal góða aukaspyrnu sem lenti á milli varnar og markmanns KR, fyrst til að átta sig var Lilja Íris sem skoraði gott mark af stuttu færi.  KR-liðið var ekki á því að gefast upp þó það væri 2-0 undir gegn nýliðum Keflavíkur.  Þær náðu að fiska vítaspyrnu á 72. mínútu og skoraði Hrefna Huld Jóhannesdóttir úr henni.  Við markið jókst pressa KR en Keflvíkurliðið náði að halda út og sigra.

Keflavíkurliðið lék allt prýðilega, allir leikmenn lögðu sig fullkomlega fram í þessum leik og var hann liðinu til mikils sóma.  Vörn liðsins og Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir markmaður stóðu í ströngu allan leikinn og skiluðu sínu mjög vel.

Við sigur Keflavíkur er liðið komið með 15 stig og á eftir að spila gegn Stjörnunni úti og ÍA heima.  Þau lið eru bæði fyrir neðan Keflavík í deildinni.

Nú kemur tveggja vikna frí vegna bikarleikja og landsleiks.  Næsti leikur er gegn Stjörnunni 31. ágúst í Garðabæ og síðan er lokaleikur liðsins 4. september heima við ÍA.

Lið Keflavíkur: Þóra, Ágústa, Lilja, Ásdís, Sunna, Ólöf (Birna), Hrefna, Nína, Guðný, Hjördís, (Elísabet Ester), Vesna.
Varamenn: Ingey, Elísabet Ester, Eva, Karen, Birna.


Lilja Íris skorar seinna mark sitt og kemur Keflavík í 2-0.
(Mynd.
Jón Örvar Arason)