Fréttir

Knattspyrna | 6. júlí 2003

Sigur á Njarðvík í markaleik

Keflavík vann 5-2 sigur á Njarðvík í fjörugum leik á Keflavíkurvelli í kvöld.  Það er óhætt að segja að búið hafi verið að bíða eftir þessum leik í Reykjanesbæ enda mættu fjölmargir áhorfendur á völlinn í ágætisveðri.  Nokkuð var haft við og m.a. heilsaði Árni Sigfússon bæjarstjóri upp á leikmenn fyrir leikinn.  Með sigrinum tryggði Keflavík enn stöðu sína á toppi 1. deildarinnar en Njarðvík er nú í 7. sæti og er komið í hóp liða sem eru í einum hnapp í neðri hluta deildarinnar.

Staðan í hálfleik var 2-2 eftir fjörugan fyrri hálfleik.  Okkar menn höfðu umtalsverða yfirburði í síðari hálfleik og skoruðu þrjú mörk án þess að gestunum tækist að ógna markinu verulega.  Ein breyting var gerð á liðinu frá síðasta leik; Scott kom inn fyrir Ólaf Ívar og var því í fyrsta skipti í byrjunarliðinu.  Guðjón var ekki í hópnum vegna meiðsla og Adolf kom ekki inn í hópinn að þessu sinni eftir að hafa tekið út leikbann.


Keflavík-Njarðvík

Víkurfréttir/Hilmar Bragi



Leikurinn byrjaði reyndar með látum og eftir um 50 sekúndna leik skallaði Haraldur rétt fyrir eftir hornspyrnu.  Skömmu síðar skaut Hólmar Örn framhjá eftir góðan undirbúning hjá Scott á vinstri kantinum.  Fyrsta umtalsverða sókn Njarðvíkinga lauk með góðri fyrirgjöf sem Ómari tókst að kýla frá á síðustu stundu.  Mínútu síðar voru Njarðvíkingar næstum því búnir að skora sjálfsmark en tókst að bjarga eigin skoti á línu eftir hornspyrnu.  Á 17. mínútu leiksins náðu gestirnir forystu; Zoran gaf óþarfa aukaspyrnu við vítateigshornið og Eyþór Guðnason skallaði fyrirgjöfina laglega í netið.  Ómar var of seinn í boltann og varnarmennirnir voru víðsfjarri.  Eftir markið hertist sókn Keflvíkinga; Magnús komst einn í gegn en Sigurður markvörður varði með glæsilegu úthlaupi og skömmu síðar varði hann gott skot Magga frá vítateigslínunni.  Njarðvík átti ekki margar sóknir á þessum kafla, einu sinni skapaðist þó hætta eftir fyrirgjöf utan af kanti en enginn náði að fylgja henni eftir.  Þegar 34 mínútur voru á klukkunni kom síðan jöfnunarmarkið; eftir snöggt innkast braust Magnús upp hægri kantinn og gaf vel fyrir markið þar sem Þórarinn afgreiddi boltann glæsilega í netið.  Og aðeins tveimur mínútum síðar hafði Magnús bætt við marki; hann fékk þá aukaspyrnu með jörðinni inn í vítateiginn, sneri varnarmann glæsilega af sér og sendi boltann í markið með föstu skoti.  Og áfram komu mörkin því tveimur mínútum eftir mark Magnúsar jöfnuðu Njarðvíkingar metin.  Eftir háa aukaspyrnu utan af kanti mistókst mönnum að hreinsa frá og Sverrir Þór Sverrisson afgreiddi boltann af markteig með laglegum hætti.  Rétt fyrir lok hálfleiksins mistókst Ómari að ná fyrirgjöf en hættunni var forðað á síðustu stundu og staðan í hálfleik því jöfn.


Keflavík - Njarðvík

Víkurfréttir/Hilmar Bragi



Óhætt er að segja að í síðari hálfleik leiksins hafi ekki farið á milli mála hvort liðið var sterkara.  Njarðvík átti ekki margar sóknir en Keflavíkurliðið var að leika vel, spennan sem virtist hrjá liðið í upphafi leiksins var horfin, boltinn gekk vel milli manna og fallegar sóknir sáu dagsins ljós.  Eftir um fimm mínútna leik hafði Kristján næstum skorað eftir hornspyrnu en Sigurður varði vel.  Það var reyndar ekki fyrr en á 58 mínútu sem næsta mark fæddist.  Magnús braust þá enn upp hægri kantinn og sendi glæsilega sendingu fyrir markið þar sem Þórarinn afgreiddi sendinguna í netið með föstu skoti.  Rétt á eftir björguðu gestirnir síðan nánast á marklínu eftir góða sókn.  Lítið sást til sóknarmanna þeirra; Sverrir Þór náði sér lítið á strik eftir að hafa leikið geysivel framan af leik.  Brynjari hafði gengið illa að ráða við körfuboltamanninn í fyrri hálfleik og fékk litla hjálp frá félögum sínum í vörninni.  Eftir hlé spilaði Brynjar fantavel, tók virkan þátt í sókninni og var þátttakandi í mörgum hættulegustu sóknunum að marki Njarðvíkinga. 

Eftir nokkrar góðar sóknir gerði Keflavíkurliðið síðan nánast út um leikinn á 70. mínútu.  Eftir klafs fyrir framan vítateiginn tók Jónas boltann, stakk sér með hann í gegnum vörnina og sendi hann með föstu skoti neðst í bláhornið.  Glæsilega gert hjá stráknum sem skoraði þarna sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk.  Skömmu síðar missti Sigurður boltann frá sér eftir enn eina sóknina en sóknarmennirnir náðu ekki að fylgja á eftir.  Magnús komst síðan aleinn inn fyirr vörnina eftir að andstæðingarnir höfði sótt framar á völlinn, Sigurður sá hins vegar við honum og varði glæsilega.  Njarðvíkingar reyndu að sækja fram en gekk illa að skapa hættu við markið og á síðustu mínútu venjulegs leiktíma var Guðni Erlendsson sendur af velli með sitt annað gula spjald eftir að hafa látið sig falla í teignum.  Nokkrum sekúndum áður en dómarinn flautaði til leiksloka kom síðan fimmta markið.  Eftir þunga pressu að marki gestanna kom hornspyrna frá vinstri sem barst á fjærstöngina þar sem Magnús var einn og óvaldaður og hann var ekki í vandræðum með að innsigla sigurinn.


Keflavík-Njarðvík

Víkurfréttir/Hilmar Bragi



Keflavíkurvöllur, 6. júlí 2003
Keflavík 5
(Þórarinn Kristjánsson 34.,58., Magnús Þorsteinsson 36.,90., Jónas Guðni Sævarsson 70.)
Njarðvík 2 (Eyþór Guðnason 17., Sverrir Þór Sverrison 38.)

Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Brynjar Örn Guðmundsson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Hörður Sveinsson 81.), Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsson (Haraldur Axel Einarsson 90.), Scott Ramsay (Ólafur Ívar Jónsson 60.) - Þórarinn Kristjánsson, Magnús Þorsteinsson
Varamenn: Magnús Þormar, Hjörtur Fjeldsted
Gult spjald: Þórarinn Kristjánsson (3.)

Dómari:
Erlendur Eiríksson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Oddbergur Eiríksson
Eftirlitsmaður: Ingi Jónsson