Sigur á Stjörnunni í markaleik
Keflavík vann sigur á Stjörnunni í fyrsta leik Íslandsmótsins en leikurinn fór fram á Keflavíkurvelli í kvöld. Lokatölurnar urðu 5-3 í fjörugum leik þar sem Keflavíkurliðið skapaði sér fjölmörg færi en gestirnir náðu í raun aðeins þremur skotum á rammann en öll fóru þau inn.
Keflavík byrjaði leikinn af miklum krafti, boltinn gekk vel milli manna og margar hraðar og beittar sóknir litu dagsins ljós. Það var hins vegar Keflvíkingurinn Bjarki Freyr Guðmundsson sem hélt Stjörnumönnum á floti með frábærri markvörslu. Alls bjargaði Bjarki um 10 sinnum í fyrri hálfleik með markvörslu í öllum regnbogans litum, þar má helst nefna frábært úthlaup þegar Hörður var sloppinn einn í gegn og síðan varði Bjarki frábærlega hörkuskalla Harðar eftir góða fyrirgjöf Ólafs Ívars. Fyrsta markið kom hins vegar á 18. mínútu þegar lúmsk sending Stefáns rataði inn fyrir vörnina á Magnús sem lék framhjá Bjarki og sendi boltann í markið. Þrátt fyrir stöðuga sókn heimamanna og fjölda færa voru það gestirnir sem skoruðu næsta mark. Eftir hornspyrnu Keflvíkinga sendu Stjörnumenn langa sendingu fram völlinn, Zoran ætlaði að skalla til baka á Ómar en Brynjar Sverrisson komst inn í sendinguna og skoraði með glæsilegu skoti. Staðan í hálfleik var því 1-1 þrátt fyrir algjöra yfirburði í fyrri hálfleiknum.
Síðari hálfleikur hófst eins og þeim fyrri lauk og strax á fyrstu mínútu hans skallaði Hólmar Örn rétt framhjá eftir góða sókn. Bjarki hélt áfram að verja en eftir um 10 mínútna var dæmd vítaspyrna á hann eftir að Hörður hafði stungið sér inn fyrir vörnina; Bjarki kom út á móti og felldi Hörð en vildi reyndar meina að hann hefði tekið boltann fyrst. Stefán skoraði hins vegar örugglega úr vítinu. Næstu mínútur sóttu Stjörnumenn nokkuð og einu sinni þurftu varnarmenn Keflvíkinga að bjarga á síðustu stundu eftir hornspyrnu. Á 77. mínútu bætti Adolf hins vegar við þriðja markinu með góðum skalla eftir aukaspyrnu Hólmars frá vinstri.
Eftir að Keflavík komst í 3-1 tóku við ótrúlegar mínútur. Tveimur mínútum síðar skoraði Valdimar Kristófersson með hörkuskalla eftir hornspyrnu en hann var nánast óvaldaður í teignum. Og aðeins mínútu síðar jöfnuðu Stjörnumenn. Dæmd var vítaspyrna á Ómar þegar hann kom út á móti sóknarmanni sem hafði sloppið einn í gegn og braut á honum við vítateigslínuna. Vilhjálmur Vilhjálmsson skoraði úr vítinu. En mínútu eftir þennan hasar fékk Keflavík aftur víti þegar brotið var á Haraldi eftir hornspyrnu. Aftur mætti Stefán á svæðið og sendi boltann í netið. Stjörnuliðið reyndi enn að jafna leikinn en við það opnaðist vörnin og þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Hafsteinn eftir góða sendingu frá Ingva Rafni inn fyrir vörnina en þeir félagar höfðu báðir komið inn á sem varamenn skömmu áður. Á síðustu sekúndunum varði Bjarki svo einu sinni enn, í þetta skiptið frá Herði sem átti greinilega ekki að skora í þessum leik.
Lokatölurnar því 5-3 fyrir Keflavík í hörkuleik. Sigurinn var sanngjarn að því leyti að liðið spilaði mun betur og skapaði sér ótalmörg færi sem nýttust því miður ekki nógu mörg. Liðið var í heild að spila vel en stuðningsmannaklúbburinn valdi Stefán mann leiksins og fékk hann í laun málsverð á Ránni.
Íslandsmótið 1. deild, Keflavíkurvöllur, 19. maí 2003
Keflavík 5 (Magnús Þorsteinsson 18., Stefán Gíslason 56. víti, 84. víti, Adolf Sveinsson 77., Hafsteinn Rúnarsson 90.)
Stjarnan 3 (Brynjar Sverrisson 38., Valdimar Kristófersson 79., Vilhjálmur Vilhjálmsson 82.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Hafsteinn Rúnarsson 90.), Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsso, Ólafur Ívar Jónsson (Adolf Sveinsson 69.) - Hörður Sveinsson, Magnús Þorsteinsson (Ingvi Rafn Guðmundsson 87.)
Varamenn: Magnús Þormar, Brynjar Örn Guðmundsson
Gult spjald: Ómar Jóhannsson (81.)
Dómari: Eyjólfur Ólafsson
Aðstoðardómarar: Hans Kristján Scheving og Oddbergur Eiríksson
Eftirlitsmaður: Gunnlaugur Jón Hreinsson