Fréttir

Sigur á Stjörnunni og úrslitaleikur framundan
Knattspyrna | 23. janúar 2013

Sigur á Stjörnunni og úrslitaleikur framundan

Keflavík leikur til úrslita í Fótbolta.net-mótinu þetta árið en það varð ljóst eftir 3-2 sigur á Stjörnunni.  Keflavík vann alla leiki sína í riðlinum og leikur því til úrslita gegn sigurliði riðils 2.  Þar geta Breiðablik, ÍA og ÍBV enn sigrað.  Úrslitaleikurinn og leiki um sæti fara fram laugardaginn 2. febrúar.

Frásögn Fótbolta.net:
Keflavík er komið í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins eftir 3-2 sigur á Stjörnunni í Kórnum í kvöld. Ljóst var fyrir leikinn að Keflavík nægði jafntefli til að tryggja sér sæti í úrslitum.

Keflvíkingar höfðu unnið báða leiki sína í mótinu til þessa en Stjörnumenn höfðu tapað báðum leikjum sínum.

Halldór Kristinn Halldórsson, fyrrum varnarmaður Vals, æfir með Keflvíkingum um þessar mundir og byrjaði leikinn í hjarta varnarinnar. Hjá Stjörnunni byrjaði Norðmaðurinn Robert Sandnes í vinstri bakverðinum. Sandnes lék með Selfossi í fyrra en æfir með Garðabæjarliðinu.

Keflvíkingar voru sprækari í upphafi leiks og komust verðskuldað yfir þegar Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði. Stjörnumenn höfðu tapað boltanum, Keflvíkingar keyrðu hratt og Magnús skoraði með hnitmiðuðu skoti í hornið eftir 15 mínútna leik. Arnar Darri Pétursson, markvörður Stjörnunnar, kom engum vörnum við.

Stjarnan jafnaði þegar varnarmaðurinn Hörður Árnason skoraði eftir fyrirgjöf frá hægri, var einn og óvaldaður og kláraði færið. Örskummu síðar átti Halldór Orri Björnsson skot naumlega framhjá eftir góðan sprett.

Skömmu fyrir leikhlé munaði litlu að Arnór Ingvi Traustason næði að skora en hann skeiðaði þá framhjá andstæðingum sínum áður en hann smellti boltanum í stöngina.

Hörður Sveinsson skoraði svo rétt fyrir hlé og endurheimti forystu Keflvíkinga. Arnar Darri gerði þá mistök, sló boltann fyrir fætur Harðar eftir fyrirgjöf frá vinstri. 2-1 fyrir Keflavík í hálfleik.

Stjarnan fékk nokkur ágætis færi í seinni hálfleiknum áður en Keflavík gerði svo gott sem út um leikinn. Elías Már Ómarsson, ungur og efnilegur leikmaður fæddur 1995, átti þá góðan undirbúning sem endaði með því að Jóhann Birnir Guðmundsson kláraði með flottu skoti uppi í fjærhornið.

Skömmu síðar náði Stjarnan að minnka muninn í 3-2 en Atli Jóhannsson skoraði þá eftir frábæra sendingu Veigars Páls Gunnarssonar. Hörður Sveinsson hefði átt að skora sitt annað mark og fjórða mark Keflavíkur þegar hann skallaði boltann yfir á markteig.

Stjarnan hefði getað jafnað en Veigari Páli Gunnarssyni brást bogalistin á vítapunktinum þegar Árni Freyr Ásgeirsson varði. Vítaspyrnan var dæmd eftir að brotið var á Halldóri Orra. Rétt fyrir leikhlé bjargaði Keflavík á línu og úrslitin 3-2.