Sigur áhorfenda
Sigur Keflavíkur á KR á heimavelli hefur vakið verðskuldaða athygli knattspyrnuáhugamanna. Árangurinn kemur mörgum á óvart, þó ekki þeim sem gleggst þekkja til liðsins. Auðvitað sýnir það sterkan karakter liðsins í fyrstu tveimur leikjunum að vera undir í leikjunum en knýja engu að síður fram sigur. Sérstaklega kom þetta sterkt fram í leiknum á móti KR. Í upphafi móts getur allt gerst hjá ungu liði. Allt farið á verri veg og ekkert sjálfstraust næst upp í liðinu. Hjá Keflavík hefur það gerst að við vinnum báða leikina, sannfærandi og sýnum flottan fótbolta. Þetta er fljúgandi start sem liðið mun nýta sér í næstu leikjum. Það sem gerði sigurinn á KR svo sætan var að sýna okkar fólki, áhangendum Keflavíkur skemmtilegan fótbolta og óþrjótandi sigurvilja í 90 mínútur. Fyrir liðið að fá 1400 manns á völlinn er eins og vera með tólfta manninn á vellinum. Áhorfendur eiga heiður skilinn fyrir góða hvatningu á leiknum og leikmenn Keflavíkur eru stoltir af því að eiga svona áhorfendur.
(Mynd: Hilmar Bragi / Víkurfréttir)