Sigur en síðan tap í Futsal-úrslitunum
Ekki tókst okkur að verja Íslandsmeistaratitilinn í innanhúsboltanum en Keflavík spilaði um helgina á Íslandsmótinu í Futsal. Á föstudagskvöldið sigraði liðið Aftureldingu/Hvíta Riddarann 14-4 í 8 liða úrslitum en spilað var í Garðinum. Auðveldur sigur og liðið allt stóð sig vel. Liðið var því komið í undanúrslit og mótherjinn Víkingur frá Ólafsvík.
Sá leikur var spilaður á laugardaginn á Álftanesi og var furðulegur í meira lagi. Keflavík komst í 5-1 en Víkingar minnkuðu muninn og staðan í hálfleik var 5-3. Seinni hálfleikur byrjaði herfilega hjá okkar mönnum og Víkingar skoruðu sex fyrstu mörkin í seinni hálfleik og því samtals átta mörk í röð. Við vorum komnir 5-9 undir og eftir það var þetta erfitt á móti góðu liði Víkinga. En að fá á sig átta mörk í röð, það á bara ekki að gerast hjá svo góðu liði sem okkar.. En svona er nú fótboltinn og fyrsta tap Keflavíkur í Futsal staðreynd. Mörkin gerðu þeir Sigurður Gunnar Sævarsson 3, Magnús Sverrir 2, Guðmundur Steinars 2, Magnús Þórir 1 og Viktor Smári 1.
Fjölnir vann svo Víking Ólafsvík í úrslitaleik 3-2 og óskum við þeim til hamingju með titilinn.