Fréttir

Knattspyrna | 26. janúar 2009

Sigur gegn Stjörnunni í hörðum leik

Á laugardag var komið að enn einum æfingaleiknum og að þessu sinni var leikið gegn Stjörnunni í Kórnum.  Leikurinn byrjaði ekki gæfulega.  Kristinn "Stinni" Magnússon byrjaði á því að meiðast strax á annarri mínútu og verður frá æfingum og keppni næsta mánuðinn.  Teimur mínútum síðar var Símun tæklaður mjög illa og þurfti umsvifalaust að yfirgefa leikvöllinn.  Ekki er enn vitað hversu alvarleg meiðslin eru.  Áfram héldu hrakfarirnar og lentum við marki undir um miðjan fyrri hálfleikinn.  Keflavíkurliðið var sem sagt lengi í gang en þegar leikmenn fundu loks taktinn fóru hlutirnir að gerast.  Magnús Sverrir jafnaði leikinn fyrir hlé eftir skemmtilega sókn, Högni Helgason kom okkur í 2-1 í upphafi seinni hálfleiks og Hörður Sveinsson tryggði sigurinn með þriðja markinu.  Stjarnan minnkaði síðan muninn undir lokin og niðurstaðan því 3-2 sigur.  Leikmenn skiptu leiktímanum bróðurlega á milli sín og tóku langflestir meistaraflokksleikmenn þátt í leiknum. 

Mynd: Högni skoraði gegn Stjörnunni.  Myndin er ekki tekin í þeim leik.