Sigur hjá 2. flokknum
Lið Keflavíkur/Njarðvíkur í 2. flokki vann 1-0 sigur á Stjörnumönnum á aðalvellinum við Hringbraut í gærkvöldi. Okkar strákar voru sterkara liðið í leiknum en gekk illa að skapa sér færi og voru ekki nógu ákveðnir þegar framar kom á völlinn, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar þeir léku með þó nokkurn vind í bakið. Í seinni hálfleik léku strákarnir ágætlega á móti vindinum og skoruðu eina mark leiksins upp úr miðjum hálfleiknum. Það var Garðar Sigurðsson sem skoraði markið; eftir hraða og góða sókn kom góð sending frá vinstri þar sem Garðar afgreiddi knöttinn laglega í markið. Eftir leikinn er liðið í 2. sæti B-riðils með 18 stig að loknum 9 leikjum.
Hart barist í leiknum gegn gulklæddum Stjörnustrákum.